Erlent

Loksins komið byggingar­leyfi eftir 137 ár af fram­kvæmdum

Atli Ísleifsson skrifar
Framkvæmdir við smíði Sagrada Familia hófust árið 1882.
Framkvæmdir við smíði Sagrada Familia hófust árið 1882. Getty
Yfirvöld í Barcelona hafa loksins samþykkt að veita byggingarleyfi vegna framkvæmda við byggingu kirkjunnar Sagrada Familia – einum vinsælasta áfangastað ferðamanna á Spáni.

Framkvæmdir við smíði kirkjunnar hófust árið 1882 og var tæpum fjórðungi hennar lokið þegar hönnuðurinn Antoni Gaudi lést eftir að hafa orðið fyrir sporvagni árið 1926.

Yfirvöld á Spáni uppgötvuðu árið 2016 að aldrei hafi verið veitt leyfi fyrir byggingu kirkjunnar, og hafa framkvæmdirnar því í raun verið ólöglegar 137 ár.

Samkomulag náðist á síðasta ári milli framkvæmdaaðila og borgaryfirvalda að framkvæmdaaðilar skyldu greiða borgaryfirvöldum 36 milljónir evra, um fimm milljarða króna, á næstu tíu árum. Féð yrði notað til að bæta samgöngur og umhverfið í kringum kirkjuna.

Sagrada Familia.Getty
Á heimasíðu borgaryfirvalda í Barcelona segir að byggingaleyfið hafi kostað 4,6 milljónir evra, um 650 milljónir króna, og að nú gæti framkvæmdir við verk Gaudi haldið áfram.

Í frétt Sky segir að til standi að ljúka framkvæmdum árið 2026, þegar öld verður liðin frá andláti Gaudi. 

Stefnt er að því að kirkjan verði 172 metrar á hæð og er heildarkosntnaðurinn áætlaður 374 milljónir evra, um 52 milljarðar króna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×