Skoðun

Kvennaslægð

Guðrún Vilmundardóttir skrifar
Konur hafa löngum brugðið á margvísleg ráð til að reyna að bæta heiminn.

Í fyrsta bindi af þriggja binda útgáfu af 1001 nótt er sagan Kvennaslægð á bls 467. Sagan gerist í Bagdad, fyrir langalöngu. Yndisleg stúlka gengur fram hjá sölubúð og lætur það, eðlilega, fara í taugarnar á sér að á skilti yfir búðinni stendur: „Engin slægð er til nema karlmannaslægð, því hún er máttugri en kvennaslægð,“ í þýðingu Steingríms Thorsteinssonar.

Í stuttri endursögn kemur yndislega stúlkan kaupmanninum í vandræði, með slægð, en þegar hann spyr, örvæntingarfullur: Hvers á ég að gjalda, svarar hún einfaldlega að hún hafi verið að sýna honum fram á að þetta skilti væri út í hött.

„Þá fékk kaupmaðurinn undir eins einum af þrælum sínum gullpening og mælti: „Far þú til skrifarans og bið hann að skrifa með hinu fegursta letri, bláu og gullnu, þessi orð: „Engin slægð tekur kvennaslægð fram, því hún yfirstígur slægð karlmanna og er henni stórum fremri.“

Svo giftust þau.

Mér fannst alltaf furðulegt að hin yndislega stúlka vildi giftast manni sem hafði haft svo asnalegt skilti yfir búð sinni (hið fyrra). Og ekki finnst mér hann sýna mikinn félagslegan þroska með seinna skiltinu, það verð ég að segja.

Til þess er þó að taka að í upphafi sögunnar í 1001 nótt er tilgreint að kaupmaðurinn hafi verið fríður sýnum, fallega vaxinn, elskulegur og borið af öðrum mönnum.

Og hann sá að sér.

Þau bjuggu saman í velgengni, friði og fögnuði allt til æviloka.




Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×