Hagkerfi Bretlands dróst saman um 0,2% á milli apríl og júní en það er í fyrsta skipti sem samdráttur verður frá árinu 2012. Fjármálaráðherra landsins segist engu að síður ekki telja að kreppa sér yfirvofandi.
Tölur bresku hagstofunnar komu á óvart en hagfræðingar áttu frekar von á stöðnun en samdrætti. Gengi pundsins veiktist í kjölfarið og hefur það ekki verið veikara gagnvart Bandaríkjadollara í 31 mánuð og gagnvart evrunni í tvö ár.
Samdrátturinn er rakinn til minni framleiðslu og veikingar í byggingariðnaði, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Hagstofan segir að landsframleiðslan í ár hafi verið sérstaklega hviklynd, meðal annars vegna þess að upphaflega ætluðu Bretar sér að ganga úr Evrópusambandinu í lok mars. Framleiðendur höfðu komið sér upp birgðum fyrir útgöngudaginn og jókst framleiðsla á meðan.
Sajid Javid, fjármálaráðherra, segir að þrátt fyrir samdráttinn spái enginn kreppu á Bretlandi. Undirstöður breska hagkerfisins séu enn sterkar.
„Þetta eru krefjandi tímar í hagkerfi heimsins og hægt hefur á vexti í mörgum löndum,“ segir Javid.
Verkamannaflokkurinn og Frjálslyndir demókratar kenna aftur á móti vandræðagangi ríkisstjórnar Íhaldsflokksins í kringum útgönguna úr Evrópusambandinu um samdráttinn, ekki síst hótunum Boris Johnson, forsætisráðherra, um að draga landið út án samnings.
