Körfubolti

Mættu í vitlausum búningi og þurftu að gefa leikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Argentínsku stelpurnar fylgjast með leik liðsfélaga sinna á bekknum.
Argentínsku stelpurnar fylgjast með leik liðsfélaga sinna á bekknum. AP Photo/Martin Mejia
Búningastjórar eru ekki til staðar hjá öllum liðum og væntanlega ekki hjá kvennalandsliði Argentínu í körfubolta. Það breytist kannski eftir uppákomu gærdagsins á Pan-Am leikunum.

Argentínska kvennalandsliðið þurfti nefnilega að gefa leik sinn á móti Kólumbíu í gær af því að leikmenn liðsins mættu í vitlausum búningi.

Pan-Am leikarnir eru íþróttaleikar allra Ameríkuþjóðanna og settir upp á svipaðan hátt og Ólympíuleikar. Þeir fara fram á fjögurra á fresti og eru á árinu á undan Sumarólympíuleikunum. Að þessu sinni fara þeir fram í Lima í Perú en síðast voru þeir í Toronto í Kanada.

Argentínumenn áttu að spila í hvítu í þessum leik í riðlakeppni leikanna en mættu í bláum búningi eins og kólumbísku stelpurnar voru í.





Argentínska liðið fékk fimmtán mínútur til að finna rétta búninginn og skipta en tókst það ekki. Niðurstaðan var því að Kólumbíu var dæmdur 20-0 sigur.

Argentínsku stelpurnar höfðu tapað fyrsta leik sínum á móti Bandaríkjunum og þetta „tap“ þýðir að liðið á ekki möguleika á því að spila um verðlaun á mótinu.

Þessi vandræðalega uppákoma hafði strax miklar afleiðingar því framkvæmdastjóri þróunarmála í kvennakörfu hjá argentínska sambandinu, Karina Rodriguez, sagði af sér og það gerði einnig, Hernan Amaya, liðstjóri argentínska liðsins.

„Þetta er sorglegasti dagurinn á mínum ferli. Ég tek fulla ábyrgð á því sem gerðist,“ sagði Hernan Amaya.

Argentínska landsliðið átti eftir einn leik á mótinu en liðið mætti Jómfrúaeyjum í dag. Argentína varr skráð heimalið í leiknum og átti því að mæta í hvítu. Þær gerðu það sem betur fer.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×