Erlent

NASA ætlar að senda þyrludróna til Títans

Kjartan Kjartansson skrifar
Teikning af lendingu Drekaflugunnar við Shangri-La-sandöldurnar við miðbaug Títans.
Teikning af lendingu Drekaflugunnar við Shangri-La-sandöldurnar við miðbaug Títans. AP/NASA
Bandaríska geimvísindastofnunin NASA tilkynnti í gær að þyrludróni sem sendur verður til Títans, stærsta tungls Satúrnusar, verði næsti stóri könnunarleiðangur hennar í sólkerfinu. Drekaflugu-leiðangurinn svonefndi varð fyrir valinu fram yfir geimfar sem lagt var til að senda til sömu halastjörnunnar og Rosettuleiðangurinn evrópski heimsótti.

Mikil gleði braust út á meðal vísindamanna sem hafa rannsakað Títan því Drekaflugan verður aðeins annað geimfarið til að heimsækja tunglið sem er það eina í sólkerfinu með þykkan lofthjúp. Huygens-lendingarfarið sveif niður í gegnum skýjahulu Títans árið 2005 og ekkert geimfar hefur verið við Satúrnus frá því að Cassini-leiðangrinum lauk árið 2017.

Vísindamennirnir þurfa þó að bíða enn um sinn. Ekki stendur til að skjóta Drekaflugunni út í geim fyrr en árið 2026. Geimfarið á að koma að Títan árið 2034. Leiðangurinn á að standa yfir rúm tvö og hálft ár. Á þeim tíma á þyrludróninn að fljúga um 175 kílómetra, um það bil tvöfalt lengra en allir könnunarjeppar sem sendir hafa verið til Mars hafa keyrt samanlagt.

Drekafluguleiðangurinn er einstakur því þetta verður í fyrsta skipti sem geimfar verður sent á annan hnött sem getur lent og flogið á milli nokkurra staða. Þéttur lofthjúpur Títans og lítill þyngdarkraftur gera það að verkum að hægt verðu að nota þyrla til að fljúga á milli álitlegra lendingarstaða á ístunglinu. Flygildið verður kjarnorkuknúið og sjálfstýrt.

Aðstæður sem líkjast jörðinni í fyrndinni

Títan er næststærsta tungl sólkerfisins, stærra en reikistjarnan Merkúríus. Aðeins Ganýmedes, tungl Júpíters er stærra. Satúrnus er um 1,4 milljörðum kílómetra frá sólinni og yfirborðshitinn á Títan er því aðeins í kringum -179°C. Loftþrýstingurinn við yfirborð Títans er um helmingi meiri en á jörðinni.

Ístunglið þykir einstaklega forvitnilegt til rannsókna fyrir margar sakir. Lofthjúpurinn, sem er fjórfalt þykkari en jarðarinnar, er að mestu leyti úr köfnunarefni eins og lofthjúpur jarðarinnar. Þar myndast aftur á móti ský og úrkoma úr metani og önnur lífræn efnasambönd falla út úr lofthjúpnum sem nokkurs konar snjókoma.

Á yfirborðinu er einnig að finna vötn fljótandi metans eða etans. Títan er eini hnötturinn í sólkerfinu fyrir utan jörðina þar sem vökva er að finna á yfirborðinu. Undir yfirborðinu er talið felast úthaf fljótandi vatns eins og í nokkrum öðrum íshnöttum í sólkerfinu. Fljótandi vatni gæti gosið upp á yfirborðið.

Þegar sólarljós bætist við lífræn efnasamband sem gætu komist í samband við fljótandi vatn á yfirborðinu telja vísindamenn að efnafræðilegar aðstæður á Títan nú geti líkst verulega þeim sem voru til staðar á jörðinni þegar líf myndaðist hér í fyrndinni. 

„Við erum með öll þessi innihaldsefni lífsins eins og við þekkjum það og þau sitja bara þarna við efnafræðitilraunir á yfirborði Títans. Þess vegna viljum við senda lendingarfar þangað,“ segir Elizabeth Turtle sem verður aðalvísindamaður leiðangursins.

Drekaflugan á einnig að rannsaka lofthjúpinn, sem er fjórum sinnum þéttari en jarðarinnar, yfirborðið og lón fljótandi efnis undir því, að því er segir í tilkynningu á vef NASA. Þá á geimfarið einnig að leita að vísbendingum um líf sem gæti hafa kviknað á Títan.

New York Times segir að ætlunin sé að myndavél verði um borð í Drekaflugunni sem streymi myndum frá yfirborði Títans til jarðar.

„Við tökum myndir bæði með myndavélum sem vísa niður á yfirborðið fyrir neðan Drekafluguna þegar við fljúgum yfir það og einnig myndavélum sem snúa fram á við þannig að við getum horft fram á sjóndeildarhringinn,“ segir Turtle.


Tengdar fréttir

Mannkynið kveður Satúrnus eftir þrettán ára heimsókn

Cassini-geimfarið hefur verið fulltrúi mannkynsins við reikistjörnuna Satúrnus í þrettán ár. Leiðangrinum lýkur á morgun þegar það þýtur niður í faðm gasrisans. Á ferðalagi sínu hefur Cassini afhjúpað leyndardóma Satúrnusar og uppgötvað nýja og framandi heima.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×