Erlent

Fyrsti leiðangursstjórnandi NASA látinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Kraft í leiðangursstjórn Merkúrleiðangranna í Houston í Texas.
Kraft í leiðangursstjórn Merkúrleiðangranna í Houston í Texas. AP/NASA
Chris Kraft, fyrsti leiðangursstjórnandi bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA, er látinn, 95 ár að aldri. Hann andaðist tveimur dögum eftir fimmtíu ára afmæli fyrstu tungllendingarinnar en Kraft lék lykilhlutverk í skipulagningu og stjórn fyrstu mönnuðu geimferðanna.

Hálfrar aldar afmæli Apolló 11-leiðangursins til tunglsins var fagnað um helgina. Kraft kom á fót leiðangursstjórn NASA fyrir fyrstu mönnuðu geimferðirnar í Gemini- og Merkúrleiðöngrunum. Hún fylgdist með kerfum geimfaranna og hafði samskipti við geimfarana.

Kraft stýrði meðal annars för Alans Shepard, fyrsta Bandaríkjamannsins sem fór út í geim, 5. maí árið 1961 og öllum sex Merkúrleiðöngrunum og sjö af tíu Gemini-ferðunum, að sögn Spaceflight Now. Hann var yfirmaður geimferða hjá NASA fram að Apolló 13-leiðangrinum og varð síðar forstöðumaður Johnson-geimmiðstöðvarinnar í Texas.

Jim Brindenstine, forstjóri NASA, lofaði framlag Kraft til tunglferðanna og sagði arfleið hans ómetanlega.

„Bandaríkin hafa misst sannkallaða þjóðargersemi í dag með fráfalli einum fyrsta brautryðjanda NASA,“ sagði Bridenstine í yfirlýsingu.

Kraft í gamla leiðangursstjórnarsalnum í Johnson-geimmiðstöðinni árið 2011. Hann hætti formlega störfum fyrir NASA árið 1982.Vísir/AP

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×