Veðurstofa Íslands hefur gefið út gula viðvörun vegna veðurs um meirihluta landsins. Viðvörunin er í gildi frá Vestfjörðum og austur eftir öllu landinu til Suðvesturlands. Vegagerðin segir að búast megi við því að Hringveginum á Suðausturlandi verði lokað í dag og þá til miðnættis í kvöld en færð fer versnandi víðast hvar á landinu nema suðvesturhorninu.
Vegagerðin hefur lokað fjölda vega í nótt vegna veðurs. Öxnadalsheiði hefur verið lokað. Víkurskarði, Vopnafjarðarheiði, Mývatnsöræfum, Hólasandi, Siglufjarðarvegi og Ljósavatnsskarði sömuleiðis.
Flestar leiðir á láglendi Suðvesturlands eru greiðfærar þó eitthvað séum hálkubletti á fjallvegum eins og Hellisheiði. Þá er mjög hvasst undir Hafnarfjalli.
Samkvæmt Veðurstofunni fer norðaustan hvassviðri eða stormur yfir landið í dag og má búast við lélegu skyggni og erfiðum akstursskilyrðum á vegum. Um mest allt land verður vindur á bilinu 18 til 23 metrar á sekúndu.
„Gengur í norðaustan hvassviðri eða storm, 18-23 m/s, norðan- og austantil, heldur hægari suðvestanlands. Hvessir frekar um landið suðaustanvert seinnipartinn, norðan 20-25 m/s í kvöld og nótt. Dregur úr vindi er líður á morgundaginn, 10-18 m/s víðast hvar undir kvöld, en hvassari á Vestfjörðum. Él eða snjókoma norðan- og austanlands en slydda eða rigning við sjóinn. Bjart með köflum og yfirleitt þurrt um landið sunnanvert. Hiti nálægt frostmarki, en upp í 8 stig með S-ströndinni,“ segir á vef Veðurstofunnar.
Vegagerðin hefur sagt frá nýjustu vendingum varðandi færð á landinu undir #færðin á Twitter.