Körfubolti

Ingi Þór getur í kvöld jafnað við Finn og farið fram úr Benna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingi Þór Steinþórsson
Ingi Þór Steinþórsson Vísir/Bára
Ingi Þór Steinþórsson kemst upp í efsta sætið yfir sigursælustu þjálfara KR í deildarkeppni úrvalsdeildar karla í körfubolta takist honum að stýra KR til sigurs á Þór úr Þorlákshöfn í DHL-höllinni í kvöld.

Ingi Þór hefur unnið 90 leiki í úrvalsdeild karla sem þjálfari KR og átti einu sinni metið.

Finnur Freyr Stefánsson var hins vegar búinn að taka það af honum með því að stýra KR-liðinu til sigurs í 91 af 110 deildarleikjum á árunum 2013 til 2018.

KR hefur unnið þrjá fyrstu leiki sína í Domino´s deildinni á þessu tímabili og þar með 90 af 135 leikjum sínum undir stjórn Inga.

KR vann 72 af 110 deildarleikjum undir stjórn Inga frá 1999 til 2004 og hefur síðan unnið 18 af 25 leikjum síðan að Ingi Þór tók aftur við liðinu í fyrra.

Ingi Þór getur líka komist fram úr vini sínum Benedikt Guðmundssyni á listanum yfir flesta sigurleiki þjálfara í deildarkeppni en þá erum við að tala um sigurleiki með öllum liðum. Ingi Þór og Benedikt hafa nú báðir unnið 176 deildarleiki í úrvalsdeild karla og skipa saman 4. til 5. sæti listans.

Í efsta sætinu er síðan mótþjálfari Inga í kvöld en Friðrik Ingi Rúnarsson hefur unnið 267 deildarleiki sem þjálfari í úrvalsdeild karla. Bræðurnir Sigurður og Valur Ingimundarsynir eru í 2. og 3. sætinu.

Leikur KR og Þórs hefst klukkan 19.15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 3.

Flestir deildarsigrar KR-þjálfara í úrvalsdeild karla 1978-2019:

Finnur Freyr Stefánsson    91

Ingi Þór Steinþórsson    90

Benedikt Guðmundsson    72

Laszlo Nemeth    54

Jón Sigurðsson    40

Gunnar Gunnarsson    36

Páll Kolbeinsson    35

Hrafn Kristjánsson    31

Flestir deildarsigrar þjálfara í úrvalsdeild karla 1978-2019:

Friðrik Ingi Rúnarsson    267

Sigurður Ingimundarson    263

Valur Ingimundarson    240

Ingi Þór Steinþórsson    176

Benedikt Guðmundsson    176

Einar Árni Jóhannsson    155




Fleiri fréttir

Sjá meira


×