Gísli Þorgeir Kristjánsson sem leikur með Kiel í Þýskalandi er loks búinn að ná heilsu eftir erfið meiðsli sem hafa verið að plaga FH-inginn.
Gísli Þorgeir hefur verið í leikmannahópi Kiel í flestum leikjum liðsins það sem af er leiktíð en spiltíminn hefur ekki verið margar mínútur.
„Ég er að komast aftur í gang og auðvitað langt síðan ég var heill. Þetta er að tínast saman smátt og smátt,“ sagði Gísli í samtali við Guðjón Guðmundsson á æfingu landsliðsins í gær.
„Það gengur mjög vel hjá liðinu og ég er mjög sáttur með hvernig það gengur. Þetta kemur allt saman.“
Gísli er eins og áður segir á mála hjá Kiel en liðið hefur að skipa mörgum af frambærilegustu leikmönnum í heimi.
„Ég er að æfa á hverjum degi með bestu handboltamönnum í heimi. Við erum að spila mjög mikið þar og ég tel mig vera í mjög góðu standi.“
Gísli er í leikmannahópi Íslands sem leikur tvo vináttulandsleiki gegn Svíum um helgina og það er tilhlökkun í Hafnfirðingnum unga.
„Ég er 100% tilbúinn í þetta verkefni. Það eru engin vandamál með öxlina. Það eru ekki neinir verkir og mér líður vel í öxlinni,“ sagði Gísli að lokum.
