Á fyrstu níu mánuðum ársins hafa tólf manns úr sjúklingahópi SÁÁ á aldrinum 20-29 ára látist.
„Það þýðir ekki endilega að þeir hafi verið nýbúnir að vera hjá okkur á þessu ári eða síðasta. Þetta þýðir einfaldlega að þeir hafa einhvern tímann komið til okkar vegna fíknisjúkdóms og útskrifast og hafa þá látist núna á árinu,“ segir Hildur Þórarinsdóttir, yfirlæknir á Vogi.

„En maður leiðir að því líkum að oft eru þessi dauðsföll í tengslum við fíknisjúkdóminn.“
Árið 2017 voru dauðsföll á aldrinum 20-39 ára úr gagnagrunni SÁÁ 50 af 125 dauðsföllum Íslendinga, eða 40 prósent. Sama ár voru fimmtíu prósent ótímabærra dauðsfalla í aldurshópnum 20-24 ára sjúklingar SÁÁ.
„Við sjáum það þegar við kíkjum á okkar gagnagrunn og tölur um látna að við virðumst eiga töluverðan hluta þeirra sem látast í þessum aldurshópum.“
Hildur segir að yngstu skjólstæðingarnir séu oftast háðir örvandi efnum en gríðarleg fjölgun hefur orðið á síðustu árum á innlögnum vegna fíknar í örvandi efni.
„Yngsti aldurshópurinn okkar, það er eiginlega algengast að hann sé að koma og verða háður örvandi efnum. En við sjáum auðvitað að unga fólkið gefur stundum upp að hafa verið að nota sterkari verkjalyf og við höfum auðvitað áhyggjur af því.“