Tónlist

Föstudagsplaylisti Brynhildar Karlsdóttur

Hjalti Freyr Ragnarsson skrifar
Hórmónar á hörkusnúning.
Hórmónar á hörkusnúning. Ian Young
Brynhildi er margt til lista lagt, útskrifaður sviðshöfundur sem vakti mikla athygli með hljómsveit sinni Hórmónum, umsjónarmaður nýlegrar útvarpsþáttaraðar um pönk á Íslandi, auk þess sem að vera danshöfundur og skáld.

Hórmónar, sem hafa nú lagst í dvala vegna annarra anna meðlimanna, voru tilnefnd til fjögurra verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum síðasta vor, þar á meðal Brynhildur sem söngkona ársins.

„Ég fæ oft þráhyggju fyrir einhverju lagi yfir eitthvað ákveðið tímabil og hlusta á það aftur og aftur og aftur eins og unglingur, meðleigjanda mínum og vinum til mikils ama,“ segir Brynhildur um lagavalið. Nokkur lög á listanum falli í þennan flokk.

Hún nefndi sérstaklega nokkur dæmi um slíka síspilaða smelli.

When Your Chances Are Gone með Erick Ellectric heyrði hún fyrst í heimsókn hjá systur sinni í Osló. „Við hlustuðum á það og sungum hástöfum með „Who’s gonna love you when your cancer is gone“ en komumst svo að því okkur til mikilla vonbrigða að textinn er  „Who’s gonna love you when your chances are gone“.“

Hún segist hafa hlustað hundrað á sinnum á plötuna Vesæl í kuldanum með Kef Lavík, en lokalagið Lifum Alltaf // Keflavíkurnætur III hafi hitt á einhverja taug. „Í hvert skipti fæ ég einhvern óræðan sting í hjartað og tár í augun í þessu síðasta lagi.“

Að lokum nefnir hún lagið More Than This með Roxy Music, sem hún segist hafa hlustað daglega á þegar hún bjó út í Prag og var svolítið einmana. „Tilfinningin í laginu finnst mér vera einmanaleiki og vonleysi en samt sem áður einhver sátt. Svolítið fallegt. Ég tengi þetta lag reyndar núna við ákveðna manneskju svo meiningin hefur aðeins breyst fyrir mér, eins og gerist.“

Einhver lög á listanum séu svona, þau eigi sér sögu eða hún hafi orðið hugfangin af þeim. „En svo eru líka önnur lög sem mér finnst bara ógeðslega svöl og gaman að dilla sér við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.