Körfubolti

Versta byrjun liðs í undanúrslitum í þrettán ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Brandon Rozzell var rosalegur í gær, skoraði 28 stig og hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum.
Brandon Rozzell var rosalegur í gær, skoraði 28 stig og hitti úr öllum fimm þriggja stiga skotum sínum. Vísir/Vilhelm
Stjörnumenn léku sér að ÍR-ingum í fyrsta leik undanúrslita Domino´s deildar karla í körfubolta í gær.

ÍR var reyndar fjórum stigum yfir eftir fyrsta leikhlutann, 20-16, en Stjarnan vann á endanum 33 stiga sigur, 96-63.

Leikur ÍR-ingar hrundi í öðrum leikhluta og Stjörnumenn unnu síðan þriðja leikhlutann með tuttugu stigum (33-13).

Þetta er versta byrjun liðs í undanúrslitum úrslitakeppni karla í þrettán ár síðan síðan í úrslitakeppninni 2006. Þetta er enn fremur fjórði stærsti sigurinn í upphafsleik undanúrslita í 35 ára sögu úrslitakeppninnar.

Það þarf að fara langt aftur til að finna annan eins rassskell í fyrsta leik hjá tveimur af fjórum bestu liðum landsins.

Njarðvíkingar unnu KR-inga með 36 stigum í fyrsta leik undanúrslitanna 2006 en það er næststærsti sigurinn í fyrsta leik í undanúrslitunum.

Keflvíkingar eiga áfram metið en þeir unnu 44 stiga sigur á nágrönnum sínum í Njarðvík í fyrsta leik undanúrslitanna vorið 2003. 

Á síðustu árum var stærsti skellurinn 30 stiga tap Hauka á Sauðárkróki í undanúrslitum 2015 en Tindastóll vann þann leik 94-64.

Stærstu sigrar í fyrsta leik í undanúrslitum í sögu úrslitakeppni karla:

44 stig - Keflavík vann Njarðvík 108-64 (2003)

36 stig - Njarðvík vann KR 101-65 (2006)

34 stig - Keflavík vann Skallagrím 105-71 (1993)

33 stig - Stjarnan vann ÍR 96-63 (2019)

30 stig - Tindastóll vann Hauka 94-64 (2015)

28 stig - KR vann Keflavík 102-74 (2009)

28 stig - Grindavík vann Snæfell 110-82 (2009)

22 stig - Tindastóll vann Keflavík 109-87 (2001)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×