Semen Altman, hinn 73 ára gamli þjálfari landsliðs Moldóvu, var ánægður með sína menn eftir 3-0 tapið gegn Íslandi í undankeppni EM á Laugardalsvelli í dag.
Moldóvar áttu aldrei möguleika en þetta var fyrsti leikur landsliðsins undir stjórn Altman.
„Þetta var erfiður leikur. Við vorum tilbúnir í langar sóknir Íslendinga. Við gerðum okkar besta,“ sagði Altman og óskaði íslenska liðinu til hamingju með framistöðuna.
Hann hrósaði sínum mönnum fyrir að hafa verið klárir í verkið og reynt sitt besta. Ísland væri hins vegar sterkt lið og leikurinn verið góð reynsla fyrir gestina.
Það var alls ekki þannig að Moldóvar hefðu ekki reynt í leiknum í dag. En gæði vantaði og hugmyndir. Þeir virtust ekki alveg ganga í takt í aðgerðum sínum.
Aðspurður um möguleika Íslands sagði Altman það þjálfara Íslands að ræða um íslenska liðið.
„Íslendingar hafa sýnt að þeir eru mjög góðir.“
