Nemendur við Lagadeild Háskóla Íslands sigruðu EES málflutningskeppnina árið 2019 sem var haldin nú um helgina. Keppnin var skipulögð af Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) í samstarfi við lagadeildir Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík, Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst.
Sigurliðið var skipað þeim Evu Hauksdóttur, Ólöfu Emblu Eyjólfsdóttur, Jóni Sigurðssyni og Maju Aleksöndru Bednarowicz. Eva Hauksdóttir hlaut jafnframt sérstaka viðurkenningu sem besti ræðumaður keppninnar.
Í úrslitaviðureigninni keppti annað tveggja liða Háskóla Íslands á móti liði frá Háskólanum í Reykjavík og sigraði lið HÍ keppnina.
Keppnin var sett upp í anda réttarhalda við EFTA dómstólinn þar sem laganemar fá tækifæri til að tala máli málsaðila í tilbúnu dómsmáli. Keppnin fór fram í húsnæði Hæstaréttar Íslands og var þetta í fyrsta skipti sem haldin var sameiginleg keppni íslenskra og norskra háskóla, í tilefni af 25 ára afmæli EES-samningsins. Þannig höfðu háskólarnir Osló, Bergen og Tromsø einnig þátttökurétt í keppninni.
Í vinning hlaut lið Háskóla Íslands ferð til Brussel og Lúxemborgar þar sem þau meðal annars heimsækja EFTA-dómstólinn, Evrópudómstólinn og sækja sérstakar málstofur og kynningar á vegum ESA.
Nemendur HÍ sigruðu EES málflutningskeppnina
Eiður Þór Árnason skrifar
