Selfoss getur því orðið Íslandsmeistari í fyrsta sinn í sögunni á miðvikudagskvöldið þegar að fjórði leikurinn fer fram í Hleðsluhöllinni á Selfossi.
Útlitið var svart hjá Selfyssingum í gær því Haukarnir áttu leikinn í seinni hálfleik og komust fimm mörkum yfir, 26-21, þegar að tæpar tíu mínútur voru eftir. Sjóðheitum Adam Haukur Baumruk skoraði þá yfir allan völlinn.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, tók leikhlé og fór yfir stöðuna með sínum mönnum. Hann bætti aukamanni í sóknina og spilaði sjö á móti sex, hann sagði mönnum að fara í árásir og ekki gefast upp auk þess sem hann gerði smávægilegar breytingar á 6:0-vörninni.
Leikmenn liðsins drógu orku þaðan og héldu áfram að fara á kostum en Sölvi Ólafsson komst í ham og varði 86 prósent skotanna sem hann fékk á sig síðustu tíu mínúturnar plús hinar tíu í framlengingunni.
Atli Ævar Ingólfsson átti eftir að bæta við tveimur mörkum á þessum ótrúlega kafla og Elvar Örn Jónsson einu en í heildina skoraði Selfoss fimm mörk á fjórum mínútum og 25 sekúndum og jafnaði í 26-26. Bæði lið skoruðu svo aðeins eitt mark hvort síðustu fimm mínútur leiksins.
Selfoss er nú búið að vinna Hauka tvisvar í Schenker-höllinni og þurfa Haukarnir að vinna aftur á útivelli á miðvikudagskvöldið eins og síðast þegar að Daníel Þór Ingason tryggði liðinu magnaðan sigur með flautumarki.