Erlent

Milljón manna flúði undan fellibylnum Fani

Kjartan Kjartansson skrifar
Heimamenn fylgjast með úfnu hafinu í Odisha-ríki.
Heimamenn fylgjast með úfnu hafinu í Odisha-ríki. Vísir/EPA
Engar fregnir hafa enn borist af mannskaða eftir að fellibylurinn Fani gekk á land á austurströnd Indlands í dag. Um milljón manna hafði flúið heimili sín á láglendum svæðum við ströndina. Fellibylnum fylgir úrhellisrigning og vindhviðum sem ná um 55 metrum á sekúndu.

Reuters-fréttastofan segir að fellibylurinn hafi fyrst gengið á land í Odisha-ríki við Bengalflóa klukkan átta í morgun að staðartíma, á fjórða tímanum í nótt á íslenskum tíma. Tré hafa rifnað upp með rótum og rafmagnslínur slitnað í veðurofsanum. Flugvöllum og skólum hefur verið lokað.

Fellibyljatímabilið á Indlandi getur staðið yfir frá apríl til desember. Um tíu þúsund manns fórust í Odisha þegar öflugur fellibylur olli usla þar í þrjátíu klukkustundir árið 1999. Talið er að rýmingar á um milljón manns hafi bjargað þúsundum lífa þegar annar fellibylur gekk á land þar árið 2013.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×