Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Breiðablik - KR 1-2 | KR-ingar jöfnuðu stigametið

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kennie Chopart skoraði fyrra mark KR.
Kennie Chopart skoraði fyrra mark KR. vísir/bára
KR sýndi af hverju þeir eru Íslandsmeistarar hér á Kópavogsvelli í dag. Leikurinn var í járnum framan af fyrri hálfleik og heimamenn betri ef eitthvað er. Það skipti hins vegar engu máli þar sem Kennie Chopart skoraði fyrsta mark leiksins á 24. mínútu og staðan orðin 1-0 KR í vil. 

Kennie vann þá hornspyrnu eftir að hafa fengið stungusendingu upp í vinstra hornið, sem er áhugavert þar sem Kennie leikur sem hægri bakvörður. Hann tók spyrnuna sjálfur stutt á samlanda sinn Tobias Thomsen sem renndi honum aftur út á Kennie sem var kominn í fínt skotfæri. Hann lét skotið ríða af og söng það í netinu, alveg út við stöng hægra megin. 

Óverjandi fyrir Gunnleif Vigni Gunnleifsson í marki Blika. Var þetta í annað skipti sem KR skorar eftir vel útfærða hornspyrnu gegn Breiðablik í sumar. 

Aðeins tveimur mínútum síðar kom Kristján Flóki KR í 2-0 með frábærum skalla eftir fyrirgjöf Óskars Arnars Haukssonar af vinstri kantinum. Reyndist það staðan þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik. 

Síðari hálfleikur var mjög svipaður og nokkuð bragðdaufur ef frá eru taldar síðustu mínútur leiksins. Heimamenn fengu vítaspyrnu undir lok leiks þegar Beitir Ólafsson, markvörður KR, var talinn brjóta á Thomas Mikkelsen. Sá danski fór sjálfur á punktinn og skoraði af öryggi. Það dugði þó ekki til og Íslandsmeistarar KR fóru með 2-1 sigur af hólmi. 

Þar með hafa þeir jafnað stigamet efstu deildar í knattspyrnu sem og þeir eru það lið sem hefur unnið deildina með mestum mun eða 14 stigum talsins. Þeir enda með 52 stig á meðan Breiðablik er í 2. sæti með 38 stig. 

Af hverju vann KR?

Þegar stórt er spurt. Leikurinn var jafn nær allan leikinn en KR-ingar hafa þennan magnaða eiginleika að vinna jafna leiki. 

Hverjir stóðu upp úr?

Kennie Chopart var stórkostlegur í hægri bakverði KR-inga og þá var Arnór Sveinn frábær við hlið hans í vörninni. Þá átti Kristján Flóki fínan leik á hægri vængnum. Hjá Blikum var Alexander Helgi bestur. Þá skoraði Mikkelsen úr vítaspyrnu undirlok leiks en hann var meira í því að láta dæma sig rangstæðan í dag.  

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Blika gekk einfaldlega bölvanlega í dag en þeir sköpuðu sér nein engin almennileg færi þrátt fyrir að vera mikið meira með boltann á löngum köflum. 

Hvað gerist næst?

Bæði lið munu eflaust fagna árangri sumarsins í kvöld. KR þó betur en Breiðablik þar sem þeir eru jú Íslandsmeistarar. Svo tekur við mánaðarpása áður en liðin hefja lengsta undirbúningstímabil í heimi.

Mikkelsen: Hefði getað skorað fleiri mörk

„Slæmur fyrri hálfleikur, spiluðum miklu betur í þeim síðari en þetta var ekki nógu gott í dag,“ sagði Mikkelsen að leik loknum í dag. 

„Smá skrýtið en við reyndum að sýna honum stuðning í dag en hann á ekki skilið þá frammistöðu sem við buðum upp á í dag því hann er mjög góður þjálfari,“ sagði sá danski um hvernig það væri að spila leikinn í dag skömmu eftir að þjálfara liðsins hafði verið sagt upp. 

„Mér fannst Gústi taka því mjög mun betur en menn reiknuðu með og var mjög fagmannlegur í undirbúningi leiksins. Við æfðum vel svo það var í raun ekki hægt að finna fyrir því sem gerðist,“ sagði Mikkelsen ennfremur um brottreksturinn. 

„Ég held að hún hafi verið fín mér fannst að ég hefði átt að skora fleiri mörk,“ sagði framherjinn að lokum en hann skoraði 13 mörk í 20 leikjum fyrir Breiðablik í sumar. 

Viðtalið fór fram á ensku en var þýtt af undirrituðum.

Tobias: Finnst ég ekki þurfa að sanna eitt eða neitt

„Mér fannst við góðir í fyrri hálfleik þar sem við skoruðum tvo góð mörk. Seinni hálfleikur var líklega sá slakasti sem við höfum spilað í allt sumar en við unnum og það er fyrir öllu,“ sagði Tobias Thomsen um sín fyrstu viðbrögð eftir leik.

„Rúnar og Bjarni ákváðu þetta í gær og við náðum þessum fullkomlega,“ sagði Tobias aðspurður um fyrra mark KR í dag en það kom eftir vel útfært horn. 

„Mér finnst ég eiga það meira skilið, ég hef spilað nánast hvern einasta leik svo ég hef spilað minn þátt. Ég geri það sem þjálfararnir vilja og reyni að hjálpa liðinu eins og ég svo það er betri tilfinning í ár en mér finnst ég ekki þurfa að sanna eitt eða neitt,“ sagði framherjinn sem hefur nú orðið Íslandsmeistari tvö ár í röð en hann vann titilinn með Val á síðustu leiktíð. Þá í aukahlutverki. 

„Held að við þurfum að gera mikið af því sama en að sama skapi að þroskast á sumum svæðum. Mér finnst deildin hafa orðið betri með hverju árinu sem ég hef verið hérna svo við þurfum að vera betri á næsta ári,“ sagði Tobias að lokum um hvað KR þyrfti að gera til að landa titlinum aftur á næsta ári. 

Viðtalið fór fram á ensku en var þýtt af undirrituðum.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira