Skoðun

Til hamingju, FKA og stjórnvöld!

Rakel Sveinsdóttir skrifar
Þann 5. apríl næstkomandi munu konur fjölmenna í Hörpunni kl. 18. Tilefnið er 20 ára afmæli FKA. Gleðin verður mikil en viðburðurinn er þó liður í því að efla tengsl kvenna sín á milli. Allt hófst þetta árið 1997 þegar þáverandi iðnaðar- og viðskiptaráðherra, Finnur Ingólfsson, skipaði starfshóp til að meta þörf fyrir stuðningsaðgerðir kvenna í atvinnurekstri. Starfshópurinn skilaði af sér niðurstöðum árið 1999 þar sem mælt var með aðgerðum. Horft var til Kanada og Bandaríkjanna sem fyrirmynda.

Úr varð að viðskiptaráðuneytið stóð fyrir stofnfundi félagsins 9. apríl árið 1999, í samvinnu við konur í atvinnurekstri. Í tilkynningu ráðuneytisins sem birt var í Morgunblaðinu sagði: „Lagði nefndin m.a. til að stofnað yrði félag eða „tengslanet“ kvenatvinnurekenda með stuðningi stjórnvalda sem hefði það að meginmarkmiði að efla samvinnu og samstöðu þeirra m.a. með það fyrir augum að þær verði áhugaverður markhópur fyrir banka og lánastofnanir.“

Fyrstu árin var viðskiptaráðuneytið fjárhagslegur bakhjarl FKA og kostaði til stöðugildi starfsmanns hjá Impru til að sjá um rekstur skrifstofu, s.s. innheimtu félagsgjalda, útgáfu fréttabréfa og fleira. Árið 2005 var félagið opnað fyrir fleiri aðildarkonum og í kjölfarið var nafninu breytt í Félag kvenna í atvinnulífinu í stað „atvinnurekstri“. Þetta þýðir að FKA-konur í dag eru stjórnendur í fyrirtækjum eða stjórnarkonur, án þess að þurfa að vera eigendur. Þótt konum hafi fjölgað, umsvif aukist og verkefnin orðið stærri hefur FKA aldrei hnikað frá þeim tilgangi sínum að vera tengslanet sem stöðugt vinnur að því að efla samvinnu og samstöðu kvenna. Þess vegna hvetjum við sem flestar leiðtogakonur til að skrá sig á viðburðinn í Hörpu næstkomandi föstudag. Saman stöndum við, saman fögnum við.

Ég hvet konur í atvinnulífinu og stjórnmálum til að mæta og fagna því samstarfi atvinnulífs og stjórnvalda sem hófst fyrir 20 árum. Eflum tengslanetið og sjáumst í Hörpu.

Rakel Sveinsdóttir, formaður Félags kvenna í atvinnulífinu (FKA).






Skoðun

Skoðun

Kona, vertu ekki fyrir!

Elín Björg Jónsdóttir,Halldóra Sigríður Sveinsdóttir,Hrafnhildur Lilja Harðardóttir skrifar

Sjá meira


×