Það eru liðnir meira en fjögur þúsund dagar (4011) síðan karlalið KR tapaði síðast í átta liða úrslitum úrslitakeppninnar.
KR-ingar hafa ekki tapað leik á þessu stigi úrslitakeppninnar í næstum því ellefu ár en þeir geta í kvöld sópað Keflvíkingum í sumarfrí og komist í undanúrslit úrslitakeppninnar.
Þegar KR-ingar gengu síðast súrir af velli eftir tap í átta liða úrslitum þá voru enn þá sex mánuðir í það að íslenska þjóðin upplifði bankahrunið.
3. apríl 2008 tapaði KR-liðið nefnilega 74-93 á heimavelli á móti ÍR í oddaleik um sæti í undanúrslitum úrvalsdeildar karla sem þá hét Iceland Express-deildin. Þetta er jafnframt síðasti tapleikur KR-inga í átta liða úrslitum.
Frá þessum degi í byrjun apríl fyrir næstum því ellefu árum síðan hafa KR-ingar unnið alla 27 leiki sína í átta liða úrslitunum. Þeir hafa unnið tíu einvígi í röð í átta liða úrslitum og eru í mjög góðum málum í núverandi einvígi sínu á móti Keflavík.
KR vann eins stigs sigur í Keflavík í fyrsta leik og fylgdi því síðan eftir með níu stiga sigri í DHL-höllinni í leik tvö. Í kvöld er komið að þriðja leik liðanna í Blue-höllinni í Keflavík en leikurinn hefst klukkan 19.15 og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.
Helgi Már Magnússon er eini leikmaður KR-liðsins í kvöld sem tók þátt í þessum síðasta tapleik í átta liða úrslitum en þjálfari liðsins var þá Benedikt Guðmundsson. Meðal leikmanna var Brynjar Þór Björnsson sem nú spilar með Tindastól og Fannar Ólafsson sem er nú einn af sérfræðingunum í Körfuboltakvöldi.
Síðasti þjálfarinn til að vinna leik á móti KR í átta liða úrslitum var Jón Arnar Ingvarsson sem stýrði ÍR-liðinu í þessu einvígi vorið 2008.
KR í átta liða úrslitum síðustu ellefu ár:
2009: KR 2-0 Breiðablik {123-75, 102-75}
2010: KR 2-0 ÍR {98-81, 103-81}
2011: KR 2-0 Njarðvík {92-80, 96-80}
2012: KR 2-0 Tindastóll {84-68, 89-81}
2013: Þór Þorl. 0-2 KR {83-121, 83-93}
2014: KR 3-0 Snæfell {98-76, 99-85, 101-84}
2015: KR 3-0 Grindavík {71-65, 81-77, 94-80}
2016: KR 3-0 Grindavík {85-67, 91-77, 83-62}
2017: KR 3-0 Þór Ak. {99-68, 81-64, 90-80}
2018: KR 3-0 Njarðvík {89-74, 91-66, 81-71}
2019: Keflavík 0-2 KR {76-77, 77-86, ...}
