ÍA tryggði sér sæti í 8-liða úrslitum Mjólkurbikars kvenna með endurkomusigri á Þrótti á Norðurálsvellinum. Þór/KA valtaði yfir Völsung á Akureyri.
Gestirnir í Þrótti byrjuðu af krafti á Akranesi og skoraði Lauren Wade tvö mörk á fyrsta korteri leiksins. Bæði lið eru taplaus í Inkassodeild kvenna í sumar.
Ólöf Sigríður Kristinsdóttir minnkaði muninn fyrir ÍA strax á 24. mínútu og var staðan 2-1 fyrir Þrótt í hálfleik.
Fríða Halldórsdóttir jafnaði metin á 55. mínútu og það var svo Eva María Jónsdóttir sem tryggði ÍA sigurinn með marki á 75. mínútu, lokatölur 3-2.
Það var ljóst að 2. deildarlið Völsungs ætti á brattann að sækja á móti sterku Pepsi Max deildarliði Þórs/KA og fór svo að Þór/KA vann stórsigur.
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir kom heimakonum á bragðið á 19. mínútu. Andrea Mist Pálsdóttir bætti við þremur mínútum seinna og Þórdís Hrönn bætti sínu öðru marki við fyrir hálfleik.
Þór/KA skoraði þrjú mörk á sex mínútna kafla í upphafi seinni hálfleiks og drap þar með þær vonarglætur sem mögulega lifðu í Völsungshjörtum. Hulda Björg Hannesdóttir rak svo síðasta naglann í kistuna á 84. mínútu, leiknum lauk með 7-0 stórsigri Þórs/KA.
Upplýsingar um úrslit og markaskorara eru fengnar frá Fótbolta.net.

