Innlent

Fær að hefja nám við Tækniskólann: „Ég er hins vegar ekki sátt við þessa afgreiðslu hjá Ármúlanum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Tækniskólinn í Reykjavík.
Tækniskólinn í Reykjavík. FBL/Eyþór
Sextán ára drengur hefur fengið vilyrði fyrir skólavist í Tækniskólanum eftir að skólayfirvöld í Fjölbrautaskólanum í Ármúla treystu sér ekki til að hafa hann við nám þar í vetur. Drengurinn glímir við fötlun en honum var meinað að mæta til náms við FÁ tveimur dögum eftir að skólinn hófst eftir að hann hafði slegið kennara.

Móðir drengsins er Anna Guðrún Sigurjónsdóttir en hún segir son sinn hafa fengið skólavist hjá Tækniskólanum en enn á eftir að ráða fólk þangað inn til að sinna syni hennar og því ekki vitað hvenær hann hefur nám.

Hafði menntasvið Reykjavíkurborgar milligöngu um að drengur fengi að hefja nám í Tækniskólanum.

Skólastjórnendur Fjölbrautaskólans í Ármúla vildu ekki tjá sig um málið þegar það kom upp fyrr í mánuðinum en skólameistarinn sagði að engum hefði verið vikið úr skóla það sem af er skólaári.

Foreldrar drengsins sögðu alveg ljóst að syni þeirra hefði verið vikið úr skóla. Honum var meinað að mæta þangað og því hafi það ekki verið neitt annað en frávísun, en drengurinn átti að stunda nám á sérnámsbraut við FÁ.

Anna Guðrún hafði sagt við Vísi að ástæðan fyrir því að FÁ varð fyrir valinu væri sú að þar væri besta sérnámsbrautin en mögulega hafi aðlögunarferlið fyrir son hennar ekki verið nógu langt.

Hún segist sátt við þessa lendingu, að sonur hennar hefji nám við Tækniskólann.

„Ég hef ekkert á móti Tækniskólanum, það þarf ekkert að vera verra fyrir hann að vera þar. Ég er hins vegar ekki sátt við þessa afgreiðslu hjá Ármúlanum, en úr þessu vil ég ekkert að hann sé þar. Svo lengi sem hann fær skólavist þá er ég glöð.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×