Tímabilið í Bandaríkjunum er að klárast hjá Svíanum Zlatan Ibrahimovic og samningur hans við LA Galaxy rennur í desember.
Zlatan Ibrahimovic er 38 ára gamall en hann hefur spilað tvö tímabil með Los Angeles Galaxy þar sem hann hefur skorað 52 mörk í 56 deildarleikjum.
Zlatan hefur verið orðaður við lið eins Internazionale og Napoli en nú er nýtt félag komið inn í myndina.
Zlatan Ibrahimovic 'wanted by Bologna on a six-month contract' once his LA Galaxy deal expires in December https://t.co/7xcev27e0s
— MailOnline Sport (@MailSport) October 21, 2019
Ítalska blaðið Corriere dello Sport hefur heimildir fyrir því að Bologna sé búið að bjóða Svíanum sex mánaða samning.
Zlatan þekkir Sinisa Mihajlovic sem er þjálfari Bologna en þeir unnu saman hjá Internazionale Milan á sínum tíma.
„Sinisa Mihajlovic hringdi í Zlatan,“ segir ítalski blaðamaðurinn Monica Colombo en Expressen segir frá.
Carlo Ancelotti, þjálfari Napoli, talaði líka um það um helgina að hann ætlaði að hringja í Zlatan og láta hann vita af áhuga félagsins.
Zlatan Ibrahimovic hafði áður talað um áhuga sinn að leika eftir það sem Diego Maradona gerði þegar hann mætti til Napoli á níunda áratugnum. Zlatan sagði það í viðtali við Gazzetta dello Sport.
„Eftir að hafa horft á heimildarmyndina um Maradona þá væri ég alveg til í að prófa svona Napoli-ævintýri. Kannski að gera það sem Maradona gerði. Ef ég væri þar þá væri Sao Paolo leikvangurinn alltaf fullur og svo er Ancelotti frábær þjálfari. Lokaákvörðun mín mun samt snúast um marga mismunandi hluti,“ sagði Zlatan Ibrahimovic við Gazzetta dello Sport.
Þegar Zlatan Ibrahimovic var spurður um áhuga liða eftir síðasta leik þá gaf hann ekkert upp. „Það eru allir að hringja í mig. Viltu fá númerið svo þú getir líka hringt í mig?,“ svaraði Zlatan í léttum tón.