Innlent

Stuðlaði að björgun fjölda flóttamanna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
TF-SIF á flugvelli í Miðjarðarhafi.
TF-SIF á flugvelli í Miðjarðarhafi. LHG
TF-SIF, flugvél Landhelgisgæslunnar, er komin heim til Íslands eftir langt og strangt úthald á vegum Frontex, Landamærastofnunar Evrópu. Vélinni var flogið til Malaga á Spáni þann 30. júlí og hafa áhafnir Landhelgisgæslunnar skipst á að sinna eftirlitinu sem fram fer á Miðjarðarhafi að því er fram kemur í tilkynningu frá LHG.

Á þessum tæpu þremur mánuðum hafi áhafnir flugvélarinnar stuðlað að björgun rúmlega 1300 flóttamanna á Miðjarðarhafi. Eftirlitið hafi jafnframt leitt til þess að mikið magn fíkniefna hafi verið gert upptækt. Vélin fór í alls 42 flug á meðan verkefninu stóð.

„Í byrjun ágústmánaðar urðu stýrimenn vélarinnar varir við meinta smyglara sem voru með 66 flóttamenn um borð um miðja nótt. Fólkinu var komið fyrir í hriplekum gúmmíbát og að lokum endaði hluti hópsins í sjónum. Á meðan flaug flugvél Landhelgisgæslunnar yfir, kom auga á fólkið sem var í lífshættu, og gerði spænskum yfirvöldum viðvart,“ segir í tilkynningunni.

Þyrla hafi verið send á vettvang og öllum bjargað úr háska.

„Ef áhöfnin á TF-SIF hefði ekki komið auga á fólkið er ljóst að illa hefði geta farið.“

Um mánaðamótin hefst langþráð uppfærsla á eftirlitsbúnaði flugvélarinnar en vonir eru bundnar við að henni verði lokið um eða eftir áramótin.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×