Hæstiréttur Spánar gaf nýverið grænt ljós að heimilt væri að flytja jarðneskar leifar Franco. Málið hefur verið mjög umdeilt í landinu en vinstristjórn Pedro Sanchez forsætisráðherra hefur þrýst mjög á að leifarnar skuli fluttar í Mingorrubio El Pardo-ríkisgrafreitinn, þar sem Carmen Polo, eiginkona Franco, hvílir.
Upphaflega stóð til að flytja líkamsleifar Franco í júní, en afkomendur hans áfrýjuðu málinu til Hæstaréttar sem kvað svo upp sinn dóm í síðasta mánuði. Lýsti Sanchez dómnum sem „sigri fyrir lýðræðið“.
Ekki staður til að upphefja einræðisherrann
Stjórn Sanchez hefur lagt áherslu á að Dalur hinna föllnu skuli vera staður þar sem hægt er að minnast og fræðast um spænsku borgarastyrjöldina. Ekki að stað þar sem hægt verði að upphefja hershöfðingjann og einræðisherrann Franco.Áætlað er að um jarðneskar leifar um 34 þúsund manna hvíli í Dal hinna föllnu. Þúsundir féllu í baráttu sinni gegn hersveitum Franco á fjórða áratug síðustu aldar og var líkum margra þeirra komið fyrir í Dal hinna föllnu án samþykkis aðstandenda. Aðstandendur fallinna hafa lengi barist fyrir því að fá líkamsleifar ættingja sinna fluttar þaðan.
Lokað frá 11. október
Fasistar og skoðanabræður Franco hafa lengi flykkst í Dal hinna föllnu á dánardegi einræðisherrans, 20. nóvember, á hverju ári. Það var Franco sjálfur sem opnaði minnisverðann í Dal hinna föllnu árið 1959, en hann stýrði Spáni á árunum 1936 til 1975.Grafhýsið í Dal hinna föllnu hefur verið lokað almenningi frá 11. október til að tryggja öryggi við flutninginn, en áætlað er að um 240 þúsund manns sæki staðinn heim á hverju ári.