Trump tilkynnti um ávarpið í tísti í gær og sagði það munu fjalla um „mannúðar- og þjóðaröryggisneyðarástandið“ á landamærunum að Mexíkó. Forsetinn hefur hótað því að lýsa yfir neyðarástandi til að reisa umdeildan múr á landamærunum án samþykkis Bandaríkjaþings. Alls óvíst er hvort að forsetinn hafi heimild til þess.
Sjónvarpsstöðvarnar CBS, NBC, ABC, CNN, PBS, C-SPAN, Fox News, Fox Business og Telemundo höfðu allar fallist á kröfu Hvíta hússins um sjónvarpsávarpið í gærkvöldi. Washington Post segir að búist sé við að ávarpið verði um átta mínútna langt. Það verður sent út klukkan tvö að íslenskum tíma. Þetta verður í fyrsta skipti sem Trump ávarpar bandarísku þjóðina með þessum hætti.
Leiðtogar demókrata hafa krafist þess að fá jafnlangan tíma til að svara ávarpinu. Í sameiginlegri yfirlýsingu Nancy Pelosi, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, og Charles Schumer, leiðtoga minnihluta demókrata í öldungadeildinni, segja þau að ef marka megi fyrri yfirlýsingar forsetans megi búast við því að ávarp forsetans verði fullt af „illvilja og rangfærslum“.
CNN hefur sagst ætla að senda út andsvar demókrata en ekki liggur fyrir hver flytur það.
CNN plans to take the Democratic response live, the network announces; it's unclear who will deliver the Dem speech
— Manu Raju (@mkraju) January 8, 2019
Þá hefur fjöldi fréttamanna haft efasemdir um réttmæti þess að senda út yfirlýsingar forsetans í beinni útsendingu vegna þess hversu mjög hann bjagar sannleikann þegar hann tjáir sig. Fullyrðingar Trump og ríkisstjórnar hans um meint neyðarástand á landamærunum hafa verið dregnar verulega í efa, ekki síst staðhæfingar um að hryðjuverkamenn streymi yfir þau.
Ávarpið kemur á tíma þegar þriðjungur alríkisstofnana hefur verið lokaður í rúmar tvær vikur. Útgjaldafrumvörp sem hefðu fjármagnað rekstur þeirra biðu skipsbrot í þinginu þegar Trump sagðist myndu neita að staðfesta þau nema í þeim fælist 5,6 milljarða dollara fjárveiting til landamæramúrsins. Demókratar, sem tóku við meirihluta í fulltrúadeild þingsins í byrjun árs, vilja ekkert með múrinn hafa.