Dásamlega djöfullegar vélanir og djarft leikhús Sigríður Jónsdóttir skrifar 3. janúar 2019 10:00 …skuggar leynast í hverju horni og þjóðin á sviði er brakið eitt, ekki síður þeir sem landinu stjórna, segir í dómnum. Mynd/grímur bjarnason Á síðastliðnum árum hafa sýningar á leikritum Williams Shakespeare heppnast misvel á leiksviðum landsins því var eftirvæntingin örlítið kvíðablandin á frumsýningarkvöldi Borgarleikhússins þegar Ríkharður III, í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur, var sýndur síðastliðinn laugardag. En sá kvíði hvarf á fyrstu mínútu sýningarinnar, þegar aðalpersónan sagði sín ódauðlegu fyrstu orð, og sneri aldrei aftur heldur umbreyttist í eftirminnilega leikhúsupplifun. Í þetta eina skipti er kannski ágætt að nota illvirkjann Ríkharð sem fyrirmynd og setja sviðið strax. Ríkharður III er fyrsta leikstjórnarverkefni Brynhildar í Borgarleikhúsinu og þvílík byrjun. Nálgun hennar að texta Shakespeares og trú á leikarana býr til sterkar rætur fyrir sýninguna. Þetta samband dafnar eftir því sem líða tekur á og blómstrar, að viðbættri fagurfræðinni. Útkoman verður siðferðislegt tómarúm, þar sem skuggar leynast í hverju horni og þjóðin á sviði er brakið eitt, ekki síður þeir sem landinu stjórna. Fremst á sviðinu situr Ríkharður sjálfur, hokinn út af hömluðum líkama sínum og gegnumsýrður af hatri til fjölskyldu sinnar. Með nútímatúlkunartækjum má spyrja hvort Ríkharður hafi fæðst rotinn eða hvort rotna hefðarkerfið hafi skapað hann. Er hegðun hans sprottin af hefndarþorsta, valdafíkn eða blöndu af hvoru tveggja? Vangavelturnar vakna með frammistöðu Hjartar Jóhanns sem er sú besta sem hann hefur sýnt á ferlinum. Í hans túlkun er Ríkharður lævís, kankvís, kaldrifjaður en einnig aumkunarverður. Hér er á ferðinni maður sem er ekki einfaldur þorpari eða siðblindingi heldur sködduð mannsskel sem drambið fellir eftir að hafa fellt alla þá sem honum standa næst. Líkamsbeiting Hjartar Jóhanns er áhrifamikil og passar vel við tvíeggja leikaravinnuna en hann tekur bæði þátt í því sem á sviðinu gerist og laumar blikki til áhorfenda, því í byrjun er þetta allt leikur í hans huga. Leikgervi Elínar þjóna Ríkharði einstaklega vel sem og sú einfalda lausn að láta hann ferðast um sviðið á forláta baklausum skrifborðsstól. Aðlögunin er unnin af Brynhildi og Hrafnhildi en framvindan er í góðum takti við upphaflega textann. Þær einbeita sér frekar að því að skera í burtu aukapersónur og málalengingar þannig að kjarninn stendur eftir. En nóg er af persónum um að ræða því það er ekki einungis Hjörtur Jóhann sem athyglina grípur, heldur er allur leikhópurinn á sömu orkuríku bylgjulengdinni. Hægri hönd Ríkharðs er hertoginn af Bokkingham, leikinn af Vali Frey, sem er lofað gulli og grænum skógum aðstoði hann Ríkharð við að hrifsa krúnuna. Það eina sem hann þarf að gera er að selja sálu sína og sjálfan sig Ríkharði. Valur Freyr fer í þetta ferðalag, þess albúinn að kafa ofan í þennan töfrandi loddara sem sér eftir öllu þegar allt er orðið um seinan. Á hliðarlínunni standa konurnar í lífi Ríkharðs, leiknar af Kristbjörgu, Sigrún Eddu, Eddu Björgu, Þórunni Örnu og nýliðanum Sólbjörtu. Hver af annarri stela þær senunni en sýna samt heillandi samleik, sérstaklega sín á milli. Kristbjörg slær tóninn snemma í sýningunni og sannar að ekki þurfa atriðin að vera mörg til að setja sitt mark á sýninguna. Kuldi og heift Margrétar svífa yfir sviðinu frá hennar fyrsta orði til hins síðasta. Sigrún Edda er sömuleiðis ísköld og eftirminnileg í sínu hlutverki. Lokaeinvígi Ríkharðs og móður hans leiftrar af sorg, harmi og hatri. Hertogafrúin af Jórvík jarðar son sinn með orðunum einum. Edda Björg finnur bæði örvæntinguna og húmorinn í Elísabetu en á eitt af bestu atriðum síns ferils í gripakaupunum sem viðruð eru undir lok sýningarinnar. Þórunn Arna á ekki auðvelt verk fyrir höndum í hlutverki lafði Önnu, kona sem er eins og opið sár, en leysir verkefnið vel af hendi, sérstaklega eftir hlé. Yngsti kvenleggurinn í þessari ætt er leikinn af Sólbjörtu en hún sýnir, bæði í kraftmiklum dansi og leik, örvæntingu Elísabetar yngri yfir örlögum þjóðarinnar og komandi kynslóða. Karlkyns áhangendur og ættmenn leika þeir Hilmar, Halldór og Jóhann, en einnig önnur smærri hlutverk. Allir fá þeir tækifæri til að skína. Hilmar með fínni einræðu Georgs fyrir hlé, Halldór í bráðfyndinni innkomu í hlutverki svallkóngsins Játvarðs IV og Jóhann í hlutverki hins heimóttarlega Hastings lávarðar. Arnar Dan og Davíð Þór eru að stíga sín fyrstu skref á atvinnusviði en ef áfram heldur eins og á undan hefur gengið þá er framtíðin björt. Lítið gætu samt leikararnir gert ef þýðingin væri unnin af hroðvirkni en svo er aldeilis ekki. Kristján Þórður beitir ekki einungis nýjum bragarhætti til að koma Shakespeare til skila á íslenskri tungu heldur stendur fyrir einni bestu nútímaþýðingu á hans verkum. Þess er óskandi að textinn komi út á bók hið fyrsta. Ekki er listræna teymið síðra enda valin manneskja í hverju hlutverki. Ilmur er fyrir löngu orðin sérfræðingur í möguleikum stóra sviðsins og velur hér þann kost að minna sé meira. Fyrsta sviðsmyndin eftir hlé var stórkostlegt samspil sviðs- og ljósahönnunar, enda er Björn Bergsteinn ekki minni sérfræðingur á þessu sviði. Filippía klæðir hvern karakter af kostgæfni enda eru búningarnir einstaklega vel heppnaðir, klæðnaður kvennanna og hin gyllta múndering biskupsins fá sérlegt hrós. Hér verður aftur að lofa umsjón Elínar með leikgervunum því hárhönnunin í sýningunni var líka algjörlega frábær. Valgerður, í samvinnu við heildarsýn Brynhildar, kryddar framvinduna með hreyfihönnuninni. Hver hreyfing bætir við litróf sýningarinnar frekar en gera strigann yfirþyrmandi. Þar verður sérstaklega að hrósa tveimur atriðum eftir hlé þar sem hreyfingar kynjanna eru speglaðar, karlarnir lokka á meðan konurnar syrgja. Líkt og sviðshreyfingar flæða tónlist Daníels og hljóð Baldvins Þórs lipurlega í gegnum framvinduna og binda atriðin einnig saman. Leikrit Williams Shakespeare eru fyrir alla. Siðleysið, hömlulausa hefndin og þeir fyrirboðar sem fyrirfinnast í Ríkharði III minna ekki lítið á Íslendingasögurnar. Í túlkun Brynhildar eru það vélanir og valdabrjálæði karlanna sem verður þeim að falli en konurnar þjást í þöglum harmi þangað til tækifærið býðst, þá grípa þær valdasprotann og von um betri framtíð fæðist. Ríkharður III er ein af bestu leiksýningum síðustu ára, stjórnað með öruggri hendi Brynhildar og leidd áfram af stórkostlegum leik Hjartar Jóhanns. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem alls ekki má missa af Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Menning Tengdar fréttir Nú er tími breytinga Fimm leikkonur á aldrinum 24 til 83 ára fara með burðarhlutverk í Ríkharði III sem verður frumsýnt í kvöld í Borgarleikhúsinu. 29. desember 2018 08:00 Mest lesið Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið Lífið Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Lífið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Lífið Ungfrú Danmörk fegurst allra Lífið Hundrað ára viðkvæmni Íslendinga: „Leið daglega yfir 40 til 50 manns“ Bíó og sjónvarp Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Edrú í eitt ár Lífið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Lára og Jens verða mamma og pabbi Lífið Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ Tónlist Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Á síðastliðnum árum hafa sýningar á leikritum Williams Shakespeare heppnast misvel á leiksviðum landsins því var eftirvæntingin örlítið kvíðablandin á frumsýningarkvöldi Borgarleikhússins þegar Ríkharður III, í leikstjórn Brynhildar Guðjónsdóttur, var sýndur síðastliðinn laugardag. En sá kvíði hvarf á fyrstu mínútu sýningarinnar, þegar aðalpersónan sagði sín ódauðlegu fyrstu orð, og sneri aldrei aftur heldur umbreyttist í eftirminnilega leikhúsupplifun. Í þetta eina skipti er kannski ágætt að nota illvirkjann Ríkharð sem fyrirmynd og setja sviðið strax. Ríkharður III er fyrsta leikstjórnarverkefni Brynhildar í Borgarleikhúsinu og þvílík byrjun. Nálgun hennar að texta Shakespeares og trú á leikarana býr til sterkar rætur fyrir sýninguna. Þetta samband dafnar eftir því sem líða tekur á og blómstrar, að viðbættri fagurfræðinni. Útkoman verður siðferðislegt tómarúm, þar sem skuggar leynast í hverju horni og þjóðin á sviði er brakið eitt, ekki síður þeir sem landinu stjórna. Fremst á sviðinu situr Ríkharður sjálfur, hokinn út af hömluðum líkama sínum og gegnumsýrður af hatri til fjölskyldu sinnar. Með nútímatúlkunartækjum má spyrja hvort Ríkharður hafi fæðst rotinn eða hvort rotna hefðarkerfið hafi skapað hann. Er hegðun hans sprottin af hefndarþorsta, valdafíkn eða blöndu af hvoru tveggja? Vangavelturnar vakna með frammistöðu Hjartar Jóhanns sem er sú besta sem hann hefur sýnt á ferlinum. Í hans túlkun er Ríkharður lævís, kankvís, kaldrifjaður en einnig aumkunarverður. Hér er á ferðinni maður sem er ekki einfaldur þorpari eða siðblindingi heldur sködduð mannsskel sem drambið fellir eftir að hafa fellt alla þá sem honum standa næst. Líkamsbeiting Hjartar Jóhanns er áhrifamikil og passar vel við tvíeggja leikaravinnuna en hann tekur bæði þátt í því sem á sviðinu gerist og laumar blikki til áhorfenda, því í byrjun er þetta allt leikur í hans huga. Leikgervi Elínar þjóna Ríkharði einstaklega vel sem og sú einfalda lausn að láta hann ferðast um sviðið á forláta baklausum skrifborðsstól. Aðlögunin er unnin af Brynhildi og Hrafnhildi en framvindan er í góðum takti við upphaflega textann. Þær einbeita sér frekar að því að skera í burtu aukapersónur og málalengingar þannig að kjarninn stendur eftir. En nóg er af persónum um að ræða því það er ekki einungis Hjörtur Jóhann sem athyglina grípur, heldur er allur leikhópurinn á sömu orkuríku bylgjulengdinni. Hægri hönd Ríkharðs er hertoginn af Bokkingham, leikinn af Vali Frey, sem er lofað gulli og grænum skógum aðstoði hann Ríkharð við að hrifsa krúnuna. Það eina sem hann þarf að gera er að selja sálu sína og sjálfan sig Ríkharði. Valur Freyr fer í þetta ferðalag, þess albúinn að kafa ofan í þennan töfrandi loddara sem sér eftir öllu þegar allt er orðið um seinan. Á hliðarlínunni standa konurnar í lífi Ríkharðs, leiknar af Kristbjörgu, Sigrún Eddu, Eddu Björgu, Þórunni Örnu og nýliðanum Sólbjörtu. Hver af annarri stela þær senunni en sýna samt heillandi samleik, sérstaklega sín á milli. Kristbjörg slær tóninn snemma í sýningunni og sannar að ekki þurfa atriðin að vera mörg til að setja sitt mark á sýninguna. Kuldi og heift Margrétar svífa yfir sviðinu frá hennar fyrsta orði til hins síðasta. Sigrún Edda er sömuleiðis ísköld og eftirminnileg í sínu hlutverki. Lokaeinvígi Ríkharðs og móður hans leiftrar af sorg, harmi og hatri. Hertogafrúin af Jórvík jarðar son sinn með orðunum einum. Edda Björg finnur bæði örvæntinguna og húmorinn í Elísabetu en á eitt af bestu atriðum síns ferils í gripakaupunum sem viðruð eru undir lok sýningarinnar. Þórunn Arna á ekki auðvelt verk fyrir höndum í hlutverki lafði Önnu, kona sem er eins og opið sár, en leysir verkefnið vel af hendi, sérstaklega eftir hlé. Yngsti kvenleggurinn í þessari ætt er leikinn af Sólbjörtu en hún sýnir, bæði í kraftmiklum dansi og leik, örvæntingu Elísabetar yngri yfir örlögum þjóðarinnar og komandi kynslóða. Karlkyns áhangendur og ættmenn leika þeir Hilmar, Halldór og Jóhann, en einnig önnur smærri hlutverk. Allir fá þeir tækifæri til að skína. Hilmar með fínni einræðu Georgs fyrir hlé, Halldór í bráðfyndinni innkomu í hlutverki svallkóngsins Játvarðs IV og Jóhann í hlutverki hins heimóttarlega Hastings lávarðar. Arnar Dan og Davíð Þór eru að stíga sín fyrstu skref á atvinnusviði en ef áfram heldur eins og á undan hefur gengið þá er framtíðin björt. Lítið gætu samt leikararnir gert ef þýðingin væri unnin af hroðvirkni en svo er aldeilis ekki. Kristján Þórður beitir ekki einungis nýjum bragarhætti til að koma Shakespeare til skila á íslenskri tungu heldur stendur fyrir einni bestu nútímaþýðingu á hans verkum. Þess er óskandi að textinn komi út á bók hið fyrsta. Ekki er listræna teymið síðra enda valin manneskja í hverju hlutverki. Ilmur er fyrir löngu orðin sérfræðingur í möguleikum stóra sviðsins og velur hér þann kost að minna sé meira. Fyrsta sviðsmyndin eftir hlé var stórkostlegt samspil sviðs- og ljósahönnunar, enda er Björn Bergsteinn ekki minni sérfræðingur á þessu sviði. Filippía klæðir hvern karakter af kostgæfni enda eru búningarnir einstaklega vel heppnaðir, klæðnaður kvennanna og hin gyllta múndering biskupsins fá sérlegt hrós. Hér verður aftur að lofa umsjón Elínar með leikgervunum því hárhönnunin í sýningunni var líka algjörlega frábær. Valgerður, í samvinnu við heildarsýn Brynhildar, kryddar framvinduna með hreyfihönnuninni. Hver hreyfing bætir við litróf sýningarinnar frekar en gera strigann yfirþyrmandi. Þar verður sérstaklega að hrósa tveimur atriðum eftir hlé þar sem hreyfingar kynjanna eru speglaðar, karlarnir lokka á meðan konurnar syrgja. Líkt og sviðshreyfingar flæða tónlist Daníels og hljóð Baldvins Þórs lipurlega í gegnum framvinduna og binda atriðin einnig saman. Leikrit Williams Shakespeare eru fyrir alla. Siðleysið, hömlulausa hefndin og þeir fyrirboðar sem fyrirfinnast í Ríkharði III minna ekki lítið á Íslendingasögurnar. Í túlkun Brynhildar eru það vélanir og valdabrjálæði karlanna sem verður þeim að falli en konurnar þjást í þöglum harmi þangað til tækifærið býðst, þá grípa þær valdasprotann og von um betri framtíð fæðist. Ríkharður III er ein af bestu leiksýningum síðustu ára, stjórnað með öruggri hendi Brynhildar og leidd áfram af stórkostlegum leik Hjartar Jóhanns. Hér er á ferðinni sannkallað listaverk sem alls ekki má missa af
Birtist í Fréttablaðinu Leikhús Menning Tengdar fréttir Nú er tími breytinga Fimm leikkonur á aldrinum 24 til 83 ára fara með burðarhlutverk í Ríkharði III sem verður frumsýnt í kvöld í Borgarleikhúsinu. 29. desember 2018 08:00 Mest lesið Vildi milljón pund, bauðst hálf og afþakkaði boðið Lífið Búa í einstakri þakíbúð í miðborginni en Halli keypti líka æskuheimilið sitt á móti Lífið „Er þetta kannski eitthvað sem þú vilt senda okkur í tölvupósti“ Lífið Ungfrú Danmörk fegurst allra Lífið Hundrað ára viðkvæmni Íslendinga: „Leið daglega yfir 40 til 50 manns“ Bíó og sjónvarp Fer ekki út úr húsi eftir greininguna Lífið Edrú í eitt ár Lífið Bjarki og Rósa orðin hjón Lífið Lára og Jens verða mamma og pabbi Lífið Fred again í sal en ekki á sviði: „Orðrómur sem við höfðum enga stjórn á“ Tónlist Fleiri fréttir Ástkona njósnarans skildi eftir sig sjóðheit bréf Efni sem veldur uppköstum, yfirliðum og eilífri æsku The Bikeriders: Hvenær komum við í flugeldaverksmiðjuna!? Kælt niður í byrjun og svo búmm! DIMMA var flott en einhæf Sjá meira
Nú er tími breytinga Fimm leikkonur á aldrinum 24 til 83 ára fara með burðarhlutverk í Ríkharði III sem verður frumsýnt í kvöld í Borgarleikhúsinu. 29. desember 2018 08:00