Skoðun

Afmælisbarnið

Davíð Þorláksson skrifar
Það finnst fæstum gaman að eiga afmæli í kringum jól og áramót. Afmælisbörnin eiga það til að gleymast í öllu tilstandinu. Lokanir vegna frídaga og vörutalninga gera það að verkum að afmælisgjafirnar verða oft óspennandi. Ný þurrkublöð eða ilmspjald í bílinn jafnvel það eina sem er í boði. Þannig hefur það verið með afmælisbarn gærdagsins, EES-samninginn. Í gær voru 25 ár liðin frá því að hann tók gildi.

Samningurinn ber aldurinn vel og hefur fært okkur foreldrum hans mikla gæfu. Hann hefur fært okkur frelsi á ýmsum sviðum og aðgang að innri markaði Evrópu sem er gulls ígildi fyrir útflutningsgreinar og þar með alla landsmenn. Það verður þó seint sagt að hinir íslensku foreldrar samningsins hafi sinnt honum sérstaklega vel. Það hefur gengið hægt og misvel að innleiða þær reglur Evrópusambandsins sem okkur ber að gera á grundvelli hans. Þar hafa norsku foreldrarnir staðið sig mun betur.

Það er líka leiðinleg tilhneiging hjá íslensku foreldrunum að fara of oft mest íþyngjandi leiðirnar að því að innleiða reglur samningsins. Þar er nýja persónuverndarlöggjöfin nýjasta dæmið. Við þyrftum líka að setja ákvæði í stjórnarskrá um framsal valds til alþjóðstofnana til að taka af allan vafa um það. Þótt samningurinn sé nú orðinn hálfþrítugur þarf samt sýna honum ást og umhyggju. Við þurfum að standa okkur betur í að uppfylla skyldur okkar við hann. Við njótum mun meira góðs af honum heldur en Evrópusambandið. Það er því alls ekki sjálfsagt að við fáum að njóta hans eins lengi og við viljum.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×