Sport

„Við munum sakna þín“

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Íslenska CrossFit drottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir.
Íslenska CrossFit drottningin Katrín Tanja Davíðsdóttir. Mynd/Instagram/katrintanja
Katrín Tanja Davíðsdóttir á eins og aðrar íslenska CrossFit konur eftir að tryggja sér sæti á heimsleikunum í ágúst en í ár er farin ný leið í baráttunni um laus sæti. Katrín Tanja var ekki með Dúbaí í desember og verður heldur ekki með á Wodapalooza mótinu í Miami um helgina.

Katrín Tanja vann Wodapalooza CrossFit mótið í fyrra en þá gaf það ekki sæti á heimsleikunum eins og nú. Það er ekki hægt að heyra annað á henni en að hún sakni þess að vera ekki aftur með í ár.

„Ef ég segi alveg eins og er þá er ég svolítið leið yfir því að missa af heilsuræktarpartýinu um næstu helgi. Minnist þess í stað frábæra tíma og vænum skammt af adrennalíni undir flóðljósunum,“ skrifaði Katrín Tanja á Instagram síðu sína.

Mótshaldarar voru líka fljótir til að svara okkar konu á Instagram. Þeir deildu myndinni af henni og auglýstu eftir því hvort einhver önnur dóttir ætlaði að leika eftir afrek Katrínar Tönju frá því í fyrra.

„Við munum sakna þín Katrín Tanja .. en mun ný dóttir standa efst upp á palli í ár?“ var svarið frá fólkinu sem sér um samfélagsmiðla Wodapalooza CrossFit mótsins í ár eins og sjá má hér fyrir neðan.

Katrín Tanja er þó ekkert að verða of sein því það er nóg af mótum eftir sem gefa farseðil á heimsleikana í Madison. Eftir mótið í Miami verða þrettán mót eftir sem gefa heimsleikasæti og eitt af þeim fer fram í Reykjavík í maímánuði.

Samantha Briggs var fyrsta konan til að tryggja sér sæti á heimsleikunum en það gerði hún á mótinu í Dúbaí í desember. Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir varð þar í þriðja sæti og Sara ætlar að reyna aftur við sætið á Wodapalooza CrossFit mótinu í Miami um helgina. Hún er kannski dóttirinn sem Wodapalooza fólkið var að auglýsa eftir.

Wodapalooza CrossFit mótið fer fram í Miami á Flórída 17. til 20. janúar og er Ragnheiður Sara eini íslenski keppandinn í kvennaflokki. Íslendingar eiga aftur á móti fulltrúa í liðakeppni mótsins en á því er keppt í öllum aldursflokkum.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×