Sport

„Tappinn var settur aftur á kampa­víns­flöskuna“

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir ætluðu að byggja hótel þegar hrunið skall á.
Arnar og Bjarki Gunnlaugssynir ætluðu að byggja hótel þegar hrunið skall á. Stöð 2 Sport

Þriðji þátturinn af A&B, þáttaraðar um tvíburabræðurna Arnar og Bjarka Gunnlaugssyni, fjallaði um þegar þeir skiptu úr fótboltanum yfir í viðskiptalífið.

Í þættinum er meðal annars fjallað um ævintýri þeirra bræðra í Miami eftir að þeir stofnuðu fjárfestingafélagið Bergmann Investments.

Bræðurnir réðust í að láta reisa lúxus-einbýlishús í Miami.

„Þeir eru mjög hugmyndaríkir og frjóir og fá góðar hugmyndir og hrinda þeim í framkvæmd. Það er þetta element sem er þeirra stærsti kostur í viðskiptum, en um leið þeirra stærsti galli,“ sagði lögfræðingurinn Vilhjálmur H. Vilhjálmsson í þættinum.

Klippa: „Tappinn var settur aftur á kampavínsflöskuna“

Hrunið setti strik í reikninginn

Þá ætluðu þeir bræður einnig að láta byggja 57 herbergja hótel í Glasgow, en það verkefni gekk hins vegar ekki jafn vel.

„Ólafur Torfason, hótelfrömuður á Íslandi, var inni í því verkefni því hann átti að reka þetta hótel,“ sagði Bjarki. 

„Já og Viðskiptabankinn og Royal Bank of Scotland,“ bætti Arnar við. „Það var allt að gerast hjá tvíburunum.“

Þrátt fyrir góðan gang í verkinu fór það þó ekki vel. Sama dag og bræðurnir fengu grænt ljós frá Royal Bank of Scotland setti Icesave-málið verkefnið í uppnám.

„Við vorum á fundi með Royak Bank of Scotland, þar sem þeir staðfesta fjármögnunina, en svo um kvöldið fáum við hringinguna,“ sagði Bjarki.

„Tappinn var settur aftur á kampavínsflöskuna,“ sagði Arnar, en Bjarki bætti við:

„Við flugum heim og allt var orðið breytt á Íslandi.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×