Þótt formlegir þingfundir hefjist ekki fyrr en í næstu viku eru þingstörfin í raun hafin. Þannig funduðu nokkrir þingflokkar í dag og störf þingnefnda fara á fullt á morgun.

Samgönguáætlun verður einmitt eitt af stóru málunum sem bíða þingsins á fyrstu dögum, að sögn Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, sem rifjar upp að samkomulag hafi tekist fyrir jól um að ljúka afgreiðslu hennar um mánaðamót. Hann nefnir einnig umræðu um Hvítbókina um framtíð fjármálakerfisins, en þar undir er sala ríkisbankanna.
Forsætisnefnd Alþingis fundaði í dag til að skipuleggja verkefni þingsins framundan. Steingrímur býst við því að þingfundir hefjist með því að forsætisráðherra flytji munnlega skýrslu um það sem er framundan á vettvangi stjórnmálanna.

Svokallað Klaustursmál setti skugga á þingstörfin fyrir jól en forsætisnefnd Alþingis lýsti sig þá vanhæfa til að fjalla um það.
„Það verður rætt núna bæði í forsætisnefnd og síðan á vettvangi formanna þingflokkanna hvernig við komum því máli bara í réttan farveg.“
-Hvaða farveg eruð þið að hugsa um?
„Það verður bara séð til þess að málið gangi sína leið, væntanlega til siðanefndar, eins og búið var að ákveða,“ svarar Steingrímur.

„Það er alveg í þeirra höndum. Ég hef engar upplýsingar um það á þessari stundu,“ segir forseti Alþingis.
Hér má sjá frétt Stöðvar 2: