Erlent

AfD kalla eftir útgöngu Þýskalands úr ESB

Andri Eysteinsson skrifar
Alexander Gauland í pontu á flokksþingi AfD í dag.
Alexander Gauland í pontu á flokksþingi AfD í dag. EPA/ Filip Singer
Þýski hægriflokkurinn Alternative für Deutschland (AfD) hafa ákveðið að berjast fyrir útgöngu Þýskalands úr Evrópusambandinu, verði kröfum þeirra um endurbætur ekki mætt fyrir árið 2024.

Guardian greinir frá því að flokksmenn hafi líka greitt atkvæði um hvort berjast ætti fyrir því að Evrópuþingið yrði lagt niður. Atkvæðagreiðslurnar voru haldnar á flokksþingi fyrir framboð AfD til Evrópuþingsins. Kosningar til Evrópuþings munu fara fram í maí.

Flokksþingið samþykkti bæði tillögu um útgöngu Þýskalands úr ESB og afnám Evrópuþingsins en kosið verður í kvöld um niðurstöður flokksþingsins.

Alexander Gauland, einn formanna AfD, sagði á fundinum að ekki væri nauðsynlegt að afnema Evrópusambandið heldur að einbeita sér aftur að grunngildum sambandsins.

AfD hefur lengi sagt að framsal valds til Brussel sé of mikið, ESB hafi farið of langt frá upphaflegum markmiðum stofnríkjanna, að vinna saman í viðskiptum og efnahagi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×