Lögreglan í Póllandi hefur handtekið kínverskan starfsmann tæknirisans Huawei auk Pólverja sem hefur áður unnið fyrir öryggisstofnanir ríkisins. Mennirnir tveir eru grunaðir um njósnir. Þetta hafði Reuters eftir heimildarmönnum í gær. Upplýsingafulltrúi pólskra öryggisstofnana sagði hins vegar að handtakan væri ekki beintengd fyrirtækinu.
Kínverska fyrirtækið sagði í yfirlýsingu að Huawei færi ávallt að lögum og reglum í því landi sem þar starfsemi fer fram. „Við krefjumst þess af öllum starfsmönnum að hlýða lögum og reglum.“
Huawei hefur verið undir smásjá Vesturlanda, einkum Bandaríkjanna, undanfarin misseri. Bandarískar öryggisstofnanir hafa fullyrt að Huawei njósni um notendur til dæmis snjallsíma og netbúnaðar fyrirtækisins fyrir stjórnvöld í Kína.
Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei og dóttir eiganda fyrirtækisins, var handtekin í Kanada í desember að beiðni Bandaríkjanna, grunuð um brot á viðskiptaþvingunum gegn Norður-Kóreu.
