Skoðun

Að lifa og lifa af

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Um síðustu helgi birtist aðsend grein í Morgunblaðinu eftir Hall Hallsson fjölmiðlamann sem valdið hefur fjaðrafoki. Í greininni fjallar Hallur um meint samsæri George Soros og annarra „glóbal­ista“ gegn vestrænni siðmenningu. „Til þess að breyta lýðsamsetningu hafa milljónir ólöglegra karla streymt til Vesturlanda í nafni opinna landamæra,“ segir Hallur.

Sama dag og grein Halls birtist í Morgunblaðinu var frumfluttur heimildarþáttur á útvarpsstöð BBC þar sem meðal annars var fjallað um það sem kalla má eitt fyrsta framlag okkar Íslendinga til hins þokukennda samfélagsmeins sem Hallur kallar glóbalisma.

Í þættinum, „History hour“, eða Sögustund, var rifjað upp atvik sem sagt var hafa „snúið á haus hvaða augum við lítum færni mannsins til ferðalaga og ævintýramennsku“. Árið 1926 ákvað ungur Norðmaður, Helge Ingstad að nafni, að selja lögfræðiskrifstofuna sína, leggjast í ferðalög og skrifa bækur um það sem bar fyrir augu. Einn daginn fékk Helge aðdáendabréf frá lesanda. Lesandinn hét Anne Stine Moe og þau Helge gerðust fyrst pennavinir og svo par. Anne Stine var fornleifafræðingur og þegar þau Helge giftu sig árið 1941 urðu þau ekki aðeins hjón heldur líka samstarfsfélagar.

Helge hafði lengi haft áhuga á Íslendingasögunum. Eiríks saga rauða var í sérstöku uppáhaldi, einkum frásögnin af Leifi, syni Eiríks, sem fann land vestan við Grænland sem hann kallaði Vínland. Marga dreymdi um að það sem stóð í Eiríks sögu rauða væri satt, að norrænir menn hefðu fundið Ameríku á undan Kristófer Kólumbusi. En enginn gat sýnt fram á það. Helge ákvað að kanna málið.

Árið 1960 héldu Helge og Anne Stine til L’Anse aux Meadows, sjávarþorps á norðurodda Nýfundnalands. Þar hittu þau fyrir sjálfskipaðan forystumann þorpsbúa, George Decker, sem vísaði þeim á grasi vaxnar rústir. Anne Stine sagði tóftirnar norrænar í útliti. Næstu átta ár gróf Anne Stine upp fornminjarnar með dyggri aðstoð þorpsbúa. Minjarnar staðfestu loks frásagnir um að norrænir menn fundu og fluttu til Ameríku í kringum árið 1000.

Í útvarpsþættinum var rætt við sérfræðing sem starfar á fornminjasvæðinu í L’Anse aux Meadows, Lorette Decker sem einnig er barnabarn George ­Decker, þess sama og kom Ingstad-hjónunum á sporið. Um ferðalög norrænna manna til Ameríku sagði Loretta: „Það skiptir ekki máli frá hvaða landi fólk kemur, saga mannsins snýst alltaf um sama hlutinn; að lifa, lifa af og sjá fjölskyldu sinni farborða.“

Lokaðir pappakassar

Fólksflutningar og ferðalög með tilheyrandi útbreiðslu hugmynda, þekkingar, tækni og menningar eiga sér árþúsunda sögu. Eins og fornleifauppgröfturinn í L’Anse aux Meadows sýnir hófst streymi fólks milli heimsálfa töluvert áður en George Soros fæddist.

Hallur Hallsson virðist aðhyllast þá söguskýringu að fyrri kynslóðir hafi alið aldur sinn í veröld sem byggð var úr kirfilega lokuðum pappakössum þar sem hver hópur dvaldi prúður í því boxi sem örlögin höfðu náðarsamlegast úthlutað honum; enginn fór út, enginn kom inn, enginn kom neins staðar frá og enginn fór fet, allt var í röð og reglu uns George Soros kom til sögunnar og fólk, hugmyndir, fjármagn og ókunnugir menningarheimar tóku að troða sér ofan í pappakassann hans Halls.

En veröldin hefur aldrei verið samansafn lokaðra pappakassa. Sumir segja að íslenska lopapeysan eigi rætur að rekja til Grænlands, aðrir til Svíþjóðar. Einu sinni voru Íslendingar heiðnir. Íslensk tunga á rætur sínar að rekja til frumgermönsku, sömu móðurtungu og danska, enska, þýska og önnur germönsk mál. Fimmtán þúsund vesturfarar fluttu frá Íslandi til Ameríku á síðari hluta 19. aldar, eða 20 prósent þjóðarinnar.

Öll erum við einhvers staðar frá – líka Hallur Hallsson – og enginn veit hvert leið okkar liggur á morgun. Það er ekkert samsæri; það er bara fólk „að lifa, lifa af og sjá fjölskyldu sinni farborða“.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×