Innlent

Frost á fróni á fyrsta degi þorra

Birgir Olgeirsson skrifar
Norðlæg átt verður í dag.
Norðlæg átt verður í dag. Vísir/Vilhelm
Lægð  austur af landi og hæð yfir Grænlandi munu valda norðlægri átt á landinu í dag. Framan af degi er útlit fyrir norðaustan kalda á landinu, strekkingur á stöku stað. Búast má við einhverri snjókomu á austurhelmingi landsins og slyddu við ströndina, einnig snjóar aðeins vestur eftir norðurströndinni og á Vestfjörðum. Þegar líður á daginn gefur vindurinn eftir og úrkoman verður lítil eða engin. Frostið í dag verður vægt, sums staðar jafnvel frostlaust við ströndina.

Á morgun er útlit fyrir norðlæga golu, en ákveðnari vindur með austurströndinni. Norðanáttinni fylgja dálítil él á Norður- og Austurlandi, en það eru horfur á léttskýjuðum degi sunnan heiða. Það kólnar í veðri og frostið verður á bilinu 2 til 12 stig.

Sunnudagurinn heilsar með hægum vindi og léttskýjuðu veðri um allt land og jafnframt mjög köldu. Seinnipartinn bætir í vind vestast á landinu og það þykknar upp þegar úrkomusvæði fer að nálgast vestan úr hafi.

Af ofansögðu er ljóst að næstu daga er tiltölulega rólegt vetrarveður í vændum og tilvalið til útivistar. Muna þarf þó að klæða af sér kuldann. Langtímaspár gera ráð fyrir áframhaldandi kulda í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×