Handbolti

Þýskaland og Frakkland í undanúrslitin en Danir skrefi nær

Anton Ingi Leifsson skrifar
Uwe fagnar marki í kvöld.
Uwe fagnar marki í kvöld. vísir/getty
Þýskaland og Frakkland eru komin áfram í undanúrslitin á HM í handbolta eftir að Þýskaland vann eins marks sigur á Króatíu í kvöld, 22-21.

Staðan var 11-11 í hálfleik er liðin mættust í Köln í kvöld en leikurinn var mögnuð skemmtun frá upphafi til enda. Ótrúleg barátta enda mikilvæg stig í boði.

Umdeildur dómur átti sér stað tæpum tveimur mínútum fyrir leikslok er Króatar fengu á sig ruðning sem þeir voru allt, allt annað en sáttir við. Þjóðverjar höfðu betur að lokum með einu marki, 22-21.

Með sigrinum fer Þýskaland upp að hlið Frökkum með sjö stig í milliriðli okkar Íslendinga og eru því bæði lið komin í undanúrslitin þar sem Spánn og Króatía eru með fjögur stig.

Manuel Strlek og Igor Karacic voru markahæstir Króata með fjögur mörk hvor en Fabian Wiede var markahæstur Þjóðverja með sex mörk. Uwe Gensheimer gerði fjögur mörk.

Það var ekki mikill meistarabragur yfir leik Dana sem unnu þó sex marka sigur á Egyptum, 26-20, eftir að hafa verið einungis tveimur mörkum yfir í hálfleik, 9-7.

Sóknarleikur Dana var ekki upp á marga fiska í fyrri hálfleik og Mikkel Hansen klúðraði meðal annars tveimur vítaköstum. Þeir settu hins vegar í gírinn þegar þess þurfti í síðari hálfleik og sigurinn aldrei í hættu.

Danirnir eru í góðri stöðu fyrir lokaumferðina í milliriðli eitt en þeir eru með átta stig. Þeir mæta Kristjáni Andréssyni og lærisveinum í Svíþjóð í lokaumferðinni en Noregur og Svíþjóð eru með sex stig.

Línumaðurinn Anders Zachariassen og stórskyttan Mikkel Hansen voru markahæstir með fimm mörk hvor en markahæstur Egypta var Ali Zeinelabedin með sex mörk úr tólf skotum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×