Handbolti

Sigvaldi: Fullt sem við getum gert betur

Smári Jökull Jónsson skrifar
„Þetta var mjög erfitt. Fyrstu 15 mínúturnar voru hundleiðinlegar, við komumst ekkert í færi og þeir fengu létt mörk. Svo komumst við inn í leikinn aftur og fórum fjórum mörkum undir í hálfleik sem sýnir flottan karakter í liðinu,“ sagði Sigvaldi Björn Guðjónsson í samtali við Tómas Þór Þórðarsson eftir tapið gegn Frökkum í Lanxess-arena í Köln í kvöld.

Ísland skoraði ekki mark fyrstu 12 mínútur leiksins og komust Frakkar þá í 6-0. Þeir komu sér þó inn í leikinn líkt og Sigvaldi segir og staðan í hálfleik var 15-11 Frökkum í vil.

„Ég veit ekki alveg hvað gerist í seinni hálfleik, hvort menn eru þreyttir. Mér fannst vanta eitthvað en þetta er eitt af bestu liðum í heimi og við erum ungir, þetta er reynsla,“ bætti Sigvaldi við.

„Við sýndum að við getum staðið í bestu liðunum. Við þurfum að fara heim og horfa á þessa leiki og sjá hvað við getum gert betur. Það er fullt sem við getum gert betur og okkar vantar okkar bestu menn þannig að við eigum fullt inni.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×