Skoðun

Klám

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Við getum ekki unað við þá firru að nekt sé í lagi. Því hver er ber? Auðvitað er ég stundum ber – en, ég er nóg, bæði að ummáli og ómynd. Svo er ég bara sjálfum mér ber. Einn. Aldrei í Seðlabankanum.

Hinn alræmdi klámhundur Gunnlaugur Blöndal hefur nú verið settur í dýflissu. Eða öllu heldur málverk eftir hann. Í því svartholi er nóg pláss, verkið er geymt þar sem gullforði Íslendinga ætti að vera. Hugguleg manneskja gekk um ganga Seðlabanka Íslands og sá málverk eftir Gunnlaug Blöndal (örugglega bróður Audda Blöndal) og hún hugsaði, „ég er nóg – og mér er nóg boðið“ og hún fór fram á það að málverk af berum kvenmanni yrði fjarlægt úr musteri mammons. Er í því framhaldi rétt að minna á hið gamla spakmæli: „Þú skalt ekki aðra guði hafa.“

Gunnlaugur Blöndal málaði reyndar líka konur í fötum, en var þá ekki bara til þess að koma af stað saurugum hugsunum hjá okkar sem á horfðum, um það hvernig þær væru fatalausar? Svo voru konurnar gjarna að verka allsbera síld á þeim myndum – ellegar vaska kviknakinn flattan þorsk.

Ég sá berstrípuð hross úti í haga í gær, þau misbuðu blygðunarkennd minni, þau voru nefnilega að ríða – sjálf altso. Mannlaus. Ég mun í framhaldinu hafa samband við sláturleyfishafa um land allt, en græt um leið að ekkert af komandi hrossakjöti getur farið í bjúgu – næg er nú tittlingadýrkunin.

Seðlabanki Íslands hefur löngum verið hof kláms og hamslausrar frygðar. Eða hver kannast ekki við mánaðarlegar orgíur peningastefnunefndar og bersöglar frásagnir hennar af stýrivöxtum með stöðuga standpínu? En nú er Gunnlaugur Blöndal á braut. Það veit á gott.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×