Innlent

Svarar til saka eftir að hafa ekið full á turtildúfur í Borgarnesi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Konan ók á parið að morgni 6. ágúst síðasta sumar.
Konan ók á parið að morgni 6. ágúst síðasta sumar. Já.is
Tæplega fimmtug kona var verulega ölvuð þegar hún ók bíl sínum á tvo erlenda ferðamenn, par frá Norður-Ameríku, á bílastæðinu við verslun Nettó í Borgarnesi að morgni mánudagsins 6. ágúst í fyrra. Þetta er niðurstaða rannsóknar héraðssaksóknara sem ákært hefur konuna fyrir umferðar- og hegningarlagabrot annars vegar og hættubrot hins vegar.

Áfengismagn í konunni mældist 2,24 prómill, sem jafngildir því að hafa drukkið í kringum tíu bjóra samkvæmt upplýsingum á vef FÍB.

Sigurður Jónasson, lögreglumaður í Borgarnesi, lýsti því í samtali við RÚV á sínum tíma hvernig konan hefði ekið niður ljósastaur og á steinkant eftir að hafa misst stjórn á bílnum í framhaldi af að hafa ekið á parið. Þau þurftu að leita á spítala til aðhlynningar og sauma þurfti annað þeirra. Parinu virðist ekki hafa orðið meint af og Íslandsförin virðist ekki ætla að hafa áhrif á ástarlífið en brúðkaup er framundan hjá parinu í maí.

Konan sem sætir ákæru er sögð hafa gengið af vettvangi. Vegfarendur veittu henni eftirför sem leiddi til handtöku hennar. Hún var ekki í ástandi til að gefa skýrslu eftir handtökuna en gerði það síðar.

Hún þarf nú að svara fyrir málið í Héraðsdómi Vesturlands í Borgarnesi en þess er krafist að hún verði dæmd til refsingar, greiðslu alls sakakostnaðar og sviptingar ökuréttar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×