Erlent

Bandaríkjastjórn í viðræðum við venesúelska herinn

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Bandaríkjastjórn hefur átt í viðræðum við hermenn venesúelska hersins til að fá þá til að snúast gegn Nicolas Maduro, forseta landsins.
Bandaríkjastjórn hefur átt í viðræðum við hermenn venesúelska hersins til að fá þá til að snúast gegn Nicolas Maduro, forseta landsins. Vísir/ap
Bandaríkjastjórn á í viðræðum við nokkra einstaklinga innan venesúelska hersins en markmiðið er að fá herinn til að snúa baki við Nicolas Maduro sem hefur gegnt embætti forseta Venesúela frá árinu 2013.

Þetta hefur fréttastofa Reuters eftir hátt settum starfsmanni hjá Hvíta húsinu sem vildi ekki láta nafn síns getið.

Bandarísk stjórnvöld hafa þá í hyggju að leggja frekari viðskiptaþvinganir á Venesúela til að auka þrýsting á Maduro. Heimildarmaður Reuters sagðist sannfærður um að fleiri hermenn muni snúast gegn Maduro.

Hann fékkst hvorki til að greina frá viðræðunum í smáatriðum né til að segja til um hvort viðræðurnar hefðu borið árangur.

Juan Guaidó, leiðtogi stjórnarandstöðunnar, sem íslensk stjórnvöld hafa viðurkennt sem lögmætan bráðabirgðaforseta Venesúela hefur áður tilkynnt að hann útiloki ekki að hann leggi blessun sína við bandaríska hernaðaríhlutun til að koma Maduro frá völdum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×