Skoðun

Kosningasvindl í Reykjavík?

Sirrý Hallgrímsdóttir skrifar
Pínleg uppákoma varð á blaðsíðu 2 í Morgunblaðinu í gær. Á neðri hluta síðunnar var frétt með mynd af blaðamannafundi Dags B. um að breyta ætti skrifstofum í svið, eða sviðum í skrifstofur (man ekki alveg hvort var). Á efri hluta síðunnar er síðan frétt um að Reykjavíkurborg hafi með ólögmætum hætti reynt að hafa áhrif á hegðun ákveðins hóps kjósenda í síðustu kosningum. Þar svaraði fyrir málið „í fjarveru“ borgarstjóra, borgarritarinn.

Hann benti í allar áttir nema í þá einu þar sem ábyrgðin liggur. Fyrsta viðbragð er eins og vanalega að tefla fram embættismönnum þegar erfið mál koma upp. Vitanlega mun Dagur þurfa að tjá sig um málið, en ferlið er alltaf það sama, fyrst er reynt að dreifa ábyrgðinni, embættismenn látnir tjá sig, og síðan kemur Dagur fram, án ábyrgðar.

Þetta mál er grafalvarlegt. Samfylkingin, Píratar og VG notuðu sameiginlega sjóði borgarbúa til að reyna að hafa áhrif á kosningahegðun. Persónuvernd bendir til dæmis á að skilaboðin sem send voru til ungra kjósenda hafi verið gildishlaðin og til þess fallin að hafa áhrif á hegðun þeirra í kosningunum.

Ótrúlegt og siðlaust.

Ég get varla beðið eftir því að sjá hvernig hinir siðvöndu Píratar ætla að bregðast við, væntanlega leggja þeir til að ferlar verði skoðaðir og skrifstofum breytt í svið, eða öfugt. Braggamál koma og fara. En tilraun til að hafa óeðlileg áhrif á kosningar er gríðarlega alvarlegt mál og ábyrgðin liggur kirfilega hjá Degi, Pírötum og VG.

Hvernig getum við treyst þessu fólki?




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×