Innviðagjald hjá Reykjavíkurborg hefur verið til umræðu vegna útilistaverka í Vogabyggð. Samtök iðnaðarins telja líkur á því að innviðagjöld í Reykjavík séu ólögleg, þau renni út í verðlag og hækki fasteignaverð.
Svipað gjald í Urriðaholti
Í Garðabæ var samið um svipað gjald í Urriðaholti og innviðagjaldið í Reykjavík. Ákvæði er um að landeigandi taki þátt í kostnaði við uppbyggingu skóla og íþróttamannvirkja í hverfinu.Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkur, segir að innviðagjald sé til skoðunar hjá fleiri sveitarfélögum. Gatnagerðargjöld dugi ekki fyrir uppbyggingu innviða í nýjum hverfum.
„Uppbyggingaraðili fær auknar byggingarheimildir og á sama tíma rukkum við innviðagjöldin. Þannig að saman erum við með lóðarhöfum að vinna að uppbyggingu samfélagslegra innviða,“ segir Sigurborg.
Hún bendir á að innviðagjald sé einnig hluti af tillögum húsnæðishóps ríkisstjórnarinnar.