Skoðun

Frost

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
Ég á ekki hitamæli enda eru þeir heldur til óþurftar. Samanber það sem merkur maður suður á Vatnsleysuströnd sagði um miðja síðustu öld, þegar nágranni vildi ekki lána honum rassmæli að brúka á sig og sína fjölskyldu: „Iss, það eru alltaf veikindi þar sem til eru hitamælar.“

Samt hef ég tekið eftir því að undanfarið hefur ríkt nokkurt frost. Ég merki það helst á kettinum sem nennir ekki út en færir sig á milli stóla hér inni, fer úr leðri í pluss og úr plussi í leður en kýlir vömbina þess á milli og étur frá mér harðfiskinn og lifrarpylsuna. Auk innflutts sérfæðis sem hingað kemur með fraktskipum. Kötturinn jafnar kolefnissporið um sumur með því að drepa mýs. En mýs reka heil ósköp við og stuðla þannig að ofsafengnara veðurlagi en áður hefur þekkst.

Landinn er duglegur að mynda mælaborðið í bílunum sínum, þar birtast hitatölur og vill hver maður helst ná svakalegustu mínustölunum á mynd og birta þær á samfélagsmiðlum. Óvíst er í hvaða tilgangi.

Hinir svokölluðu „elstu menn“ sem eðli málsins samkvæmt eru aldrei sömu mennirnir hafa þó ekki verið spurðir út í þennan frostakafla. Líklega vegna þess að það þarf ekki að leita til nema fjórtán ára barna til þess að rifja upp skelfilegra kuldakast – en þau börn ættu flest að muna veturinn 2011.

Þetta samfélag er alltaf að ná nýjum hæðum í taugaveiklun yfir aðgreindustu málum, nú er það frostið. Það er líkt og hér hafi aldrei áður fryst, sundlaugar loka, hlutdeild Sólskríkjusjóðsins í skráðum hlutafélögum fer að verða hættuleg efnahagslífinu, „elstu menn“ muna ekkert en liggja fullir á Tene.

Hvað næst? Jú, bann við hitamælum: Því það eru alltaf veikindi þar sem til eru hitamælar.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×