Þingið útnefndi Guaidó starfandi forseta fyrr í mánuðinum eftir að kjörtímabil Nicolás Maduro rann út enda álítur það forsetakosningar síðasta árs ólöglegar.
Maduro er ósammála og álítur þingið valdalaust í þokkabót eftir að hann stofnaði sérstakt stjórnlagaþing, einvörðungu skipað sósíalistum, og lét setja sjálfan sig aftur inn í embætti.
Bandaríkin, Lima-hópurinn, Samtök Ameríkuríkja og dágóður fjöldi sjálfstæðra ríkja hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó og viðurkennt hann sem starfandi forseta. Evrópuþingið bættist í þann hóp. 439 þingmenn greiddu atkvæði með tillögu þess efnis en 104 gegn. Aukinheldur er kallað eftir nýjum kosningum í landinu.
Guaidó þótti heimsóknin í gær óhugguleg. „Ég mun sjá til þess að þið verðið dregin til ábyrgðar fyrir að ógna heilsu barns míns,“ sagði hann á fjöldafundi í höfuðborginni Caracas. Bandaríkin hafa sömuleiðis lýst því yfir að afleiðingarnar verði alvarlegar ef Maduro-stjórnin beitir sér gegn Guaidó af hörku.

Jazairy sagði að þvinganirnar gætu gert efnahagshörmungar Venesúela enn verri, en nú þegar berjast íbúar í bökkum við að verða sér úti um nauðsynjar. „Þvingunum, hvort sem þær koma frá hernum eða eru á sviði viðskipta, á aldrei að beita til þess að koma ríkisstjórn fullvalda ríkis frá völdum. Slík beiting þvingana gengur í berhögg við alþjóðalög,“ sagði Jazairy.
Um þremur vikum eftir að Guaidó tók við sem starfandi forseti er hann enn svo gott sem valdalaus. Stjórnarandstaðan sagðist í upphafi ætla að leita til venesúelska hersins í von um stuðning en langflestir hermenn, og öll yfirstjórn hersins, eru enn hliðhollir Maduro.
Guaidó sagði þó frá því í gær að hann hefði átt leynilega fundi með hermönnum og -foringjum í von um að afla stuðnings þeirra. „Lykillinn að því að ná stjórninni frá völdum er að herinn hætti að styðja hana. Meirihluti hermanna er sammála um að það sé ekki hægt að halda áfram á þessari braut. Stjórnarandstaðan heitir því að enginn þeirra hermanna sem snúa baki við Maduro verði ákærður fyrir glæpi gegn mannkyninu.“