Skoðun

Kalt

Þórarinn Þórarinsson skrifar
Andstyggilegar frosthörkurnar sem herja þessi dægrin á okkur viðkvæmu stofublómin fyrir sunnan. Skammdegisþunglynd kuldaskræfa eins og ég treystir sér varla undan tvöföldu sængurlaginu á morgnana á meðan ég heyri beinlínis frostið mála sínar dauðarósir á gluggarúðurnar.

Þetta er niðurdrepandi og leiðinlegt en verst af öllu er þó hversu fast kuldaboli bítur mann í hégómann. Hún nístir þversögnin að það er aldrei erfiðara að halda „kúlinu“ en einmitt í kulda.

Íslendingar vita það af biturri reynslu að eina vörnin gegn kuldanum er að klæða hann af sér en það er ekki svalt að vera dúðaður. Þvert á móti er það bara óbærilega hallærislegt.

Hárið á manni kemur til dæmis alltaf úfið og tætt undan húfunni, jafnvel þótt maður hafi steingert það með þverhandarþykku lagi af öflugu hárgeli. Þetta eru þó smámunir miðað við þá niðurlægingu að þurfa að smeygja sér í síðar nærbuxur.

Þær hafa þó ótvírætt sér til ágætis að þær halda manni heitum og eru ekki sýnilegar á almannafæri. En þar sem karlmaður sem gengur í síðum er vitaskuld aumingi þá rýrnar sjálfstraustið við það eitt að finna fyrir ullinni undir gallabuxunum. Manni finnst einhvern veginn eins og allir viti af þessu og séu að glápa á mann eins og maður væri með unglingabólu á nefinu.

Allra verst er að nærbrækur sem ná niður á ökkla eru gersneyddar öllum kynþokka og ástalífið er því jafn botnfrosið og sálartetrið þannig að fari þessum andskota ekki að linna neyðist ég til þess að rifja upp gamla takta frá sokkabandsárunum þegar ég var orðinn býsna flinkur að kippa föðurlandinu niður með gallabuxunum svo lítið bæri á.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×