Skoðun

Stúdentspróf í tölvuleikjagerð

Lilja Alfreðsdóttir skrifar
Menntadagur atvinnulífsins er í dag en þá gefst stjórnvöldum og fyrirtækjum tækifæri til að bera saman bækur sínar og líta til framtíðar. Góð samvinna þessara aðila gerir okkur betur kleift að auka samkeppnishæfni Íslands. Dæmi um árangursríka samvinnu af því tagi er nýlegt samkomulag menntamálaráðuneytisins við Keili um nýja námsleið til stúdentsprófs í tölvuleikjagerð en þar komu Samtök iðnaðarins, Samtök leikjaframleiðenda og Samtök verslunar og þjónustu öll að borðinu. Námið er framfaraskref, þar sem það svarar áhuga ungs fólks á menntun í skapandi greinum og svarar ákalli atvinnulífsins eftir vel menntuðu og sérhæfðu starfsfólki í þeim geira.

Nýja námsleiðin er til marks um grósku í íslensku menntakerfi og er til þess fallin að styðja við hugverkadrifið hagkerfi framtíðarinnar. Tölvuleikjaiðnaðurinn hefur vaxið ört undanfarin ár en uppsöfnuð velta hans hér á landi nam um 68 milljörðum kr. á árunum 2009-2017. Innan iðnaðarins fyrirfinnast fjölbreytt, spennandi og verðmæt störf sem byggja á hugviti.

Að undanförnu hafa bæst við ýmsir nýir námskostir á framhalds- og háskólastigi hér á landi, námsbrautir framhaldsskóla hafa verið endurskoðaðar og skipulag námsins tekið talsverðum breytingum. Það er okkar að tryggja að menntakerfið geti sem best mætt fjölbreyttum nemendahópum og þörfum samfélagsins á hverjum tíma en það er eitt af markmiðum í þeirri vinnu sem nú stendur yfir við mótun menntastefnu Íslands til ársins 2030.

Áherslur stjórnvalda á nýsköpun, starfs- og tæknimenntun má glöggt sjá í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar og fjármálaáætlun hennar. Það verður spennandi að sjá hvaða viðtökur þessi nýja námsleið fær þegar skráning hefst síðar í vetur. Ég hvet alla til þess að kynna sér þá fjölbreyttu námskosti sem bjóðast í íslenskum skólum og vera vakandi fyrir þeim tækifærum sem opnast með aukinni menntun og nýrri þekkingu.

Höfundur er mennta- og menningarmálaráðherra




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×