Erlent

Endalokum Opportunity-leiðangursins líklega lýst yfir í dag

Kjartan Kjartansson skrifar
Sjálfsmynd sem Opportunity tók í febrúar árið 2005. Engir sólargeisla bárust til sólarsellnanna þegar rykstormurinn mikli gekk yfir.
Sjálfsmynd sem Opportunity tók í febrúar árið 2005. Engir sólargeisla bárust til sólarsellnanna þegar rykstormurinn mikli gekk yfir. NASA/JPL-Caltech/Cornell
Stjórnendur leiðangurs könnunarjeppans Opportunity á Mars reyndu að ná sambandi við hann í síðasta skipti í gærkvöldi. Ekkert hefur spurst til Marsfarsins frá því að samband við það slitnaði í tröllauknum rykstormi síðasta sumar.

Opportunity hefur rannsakað Mars undanfarin fimmtán ár og er langlífasta könnunarfar á yfirborði annars hnattar í sögunni. Sambandið við könnunarjeppann rofnaði 10. júní. Þá var lítil hleðsla eftir á sólarrafhlöðu jeppans og rykstormurinn lokaði á allt sólarljós. Stormurinn náði þvert yfir reikistjörnuna þegar verst lét.

Verkfræðingar og vísindamenn bandarísku geimvísindastofnunarinnar NASA hafa síðan reglulega reynt að ná sambandi við Opportunity. Vonir stóðu til að rafhlöðurnar gætu aftur hlaðið sig þegar storminum slotaði. Þegar það gekk ekki eftir lögðu menn traust sitt á að árstíðarbundnir vindar myndu hreinsa ryk af sólarsellunum.

Síðustu tilraunirnar til þess að ná sambandi voru gerðar í gær og er útlitið ekki bjart. Space.com segir að NASA hafi boðað til blaðamannafundar með Jim Bridenstein, forstjóra NASA, Thomas Zurbuchen, vísindastjóra stofnunarinnar, og John Callas, verkefnisstjóra Opportunity-leiðangursins, klukkan 19 að íslenskum tíma í dag.


Tengdar fréttir

Enn spyrst ekkert til Marsjeppans Opportunity

Langlífasti könnunarjeppi NASA liggur líklega enn í dvala eftir gríðarlegan sandstorm sem gekk yfir Mars í sumar. Óvíst er hvort hann vakni aftur til lífsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×