Sport

Super Bowl-hetjan Foles yfirgefur Ernina

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Foles eftir að hann vann Super Bowl með Eagles. Hann verður klárlega eftirsóttur.
Foles eftir að hann vann Super Bowl með Eagles. Hann verður klárlega eftirsóttur. vísir/getty
NFL-liðið Philadelphia Eagles tilkynnti í gær að félagið hefði ákveðið að leyfa leikstjórnandanum Nick Foles að róa á önnur mið.

„Eftir miklar umræður er það rétta í stöðunni að leyfa honum að fara. Hann er stórkostlegur leikmaður og var besti leikmaður Super Bowl. Við vorum mjög lánsamir að hafa hann í okkar liði og óskum honum alls hins besta í framtíðinni,“ sagði Howie Roseman, framkvæmdastjóri Eagles.

Foles verður því laus allra mála þann 13. mars og má semja við það lið sem hann vill. Eagles ætlar að halda sig við Carson Wentz líkt og félagið hefur gert síðustu ár.

Foles leysti Wentz af hólmi leiktíðina 2017 og fór með liðið alla leið. Einn óvæntasti sigur í sögu Super Bowl en Foles hafði betur gegn Tom Brady í úrslitaleiknum.

Foles leysti meiddan Wentz aftur af hólmi á nýliðinni leiktíð. Með hann í stuði vann Eagles mjög óvæntan sigur á Chicago Bears í úrslitakeppninni en Ernirnir töpuðu svo gegn New Orleans Saints.

NFL



Fleiri fréttir

Sjá meira


×