Skoðun

Ungi maðurinn

Lára G. Sigurðardóttir skrifar
„Við tökum ekki við snertilausri greiðslu með síma.“ Veröldin hrundi. Ég var búin að láta mig dreyma um mjólkurkaffi og múffu síðan ég vaknaði snemma um morguninn og dröslaðist á æfingu – í þreytuþokunni hafði ég gleymt greiðslukortinu.

Á meðan ég hugsaði um aðrar leiðir til að nálgast verðlaunin heyrðist í ungum manni sem saup úr nýlöguðum kaffibolla: „Ég skal borga fyrir þig.“

Ég þakkaði manninum eins og hann hefði bjargað lífi mínu. Hann sagðist nokkrum sinnum hafa verið í sömu sporum og þá hafi aðrir boðist til að borga fyrir hann. Hann langaði að endurgjalda greiðann – þó svo að ég hefði aldrei hjálpað honum.

Orð hans fengu mig til að hugsa. Ef ég væri í sæti unga mannsins þá hefði ég líklega hugsað: „Æ, mikið er hún óheppin þessi,“ og haldið áfram að sötra kaffið. Ekki út af mannvonsku, heldur hugsunarleysi.

Sem er umhugsunarvert því að rétta fram hjálparhönd gagnast ekki einungis þeim sem er hjálparþurfi. Rannsókn á fólki með kvíða og þunglyndi sýndi að það skipti miklu máli hvort það beindi athyglinni að því að bæta eigin sjálfsímynd eða að hjálpa öðrum. Ef þau fengu sjálfmiðuð verkefni eins og að láta aðra taka eftir sér þá versnuðu kvíða- og þunglyndiseinkenni. Aftur á móti leið þeim betur sem var falið að gera eitthvað fyrir aðra eins og að fara með vin út að borða í hádeginu.

Ég geri mér grein fyrir að kaffihúsadæmið er hreint lúxusvandamál (svona eftir á að hyggja) en það má heimfæra á margt annað í lífinu. Eru það kannski þessu litlu hlutir sem skipta mestu máli? Að taka eftir hvert öðru og vera tilbúin að rétta hjálparhönd. Þó svo að maður hafi aldrei hitt viðkomandi áður. Eins og ungi maðurinn á kaffihúsinu.




Skoðun

Skoðun

Þorpið

Alina Vilhjálmsdóttir skrifar

Sjá meira


×