Bandaríski tónlistarmaðurinn R. Kelly hefur gefið sig fram við lögregluyfirvöld í Chicago eftir að handtökuskipun var gefin út á hendur honum í gær.
R&B-tónlistarmaðurinn hefur verið ákærður fyrir tíu kynferðisbrot en samkvæmt heimildum breska ríkisútvarpsins BBC eru níu af tíu gegn stúlkum undir lögaldri.
Fjölmargar konur hafa á undanförnum árum stigið fram og borið R. Kelly þungum sökum. Hann hefur staðfastlega neitað sök. Lögfræðingur hans segir að R. Kelly sé í taugaáfalli vegna nýjustu vendinga í málinu.
Kynferðisbrotin sem R. Kelly er ákærður fyrir spanna rúman áratug eða á milli ársins 1998 til 2010. Þrjár stúlkur sem urðu fyrir brotunum voru á milli 13 og 16 ára þegar brotin áttu sér stað. Samkvæmt dómsmálaráðherra Illinois getur R. Kelly átt von á þriggja til allt að sjö ára fangelsisdómi verði hann sakfelldur.