Þetta verður annar fundur leiðtoganna og munu þeir meðal annars ræða kjarnorkuafvopnun Norður Kóreu.
Yfirvöld í Víetnam keppast við að undirbúa fundinn og taka vel á móti hinum mikilvægu gestum. Umfangið er mikið og að mörgu að huga.
Hárgreiðslustofa í borginni heldur upp á leiðtogafundinn með því að bjóða ókeypis hárgreiðslu að hætti Kim Jong-Un og Donalds Trump en báðir eru þekktir fyrir sérstakan hárstíl.

Hárskerinn Le Tuan Duong segir tilboðið til gamans gert en það hafi komið honum á óvart hversu margir Víetnamar vilji líkjast þeim félögum Trump og Kim. Hann vonast til að fundurinn verði árangursríkur.
„Hanoi er borg friðar,“ segir hann. „Þegar Donald Trump og Kim Jong-Un sögðust ætla að koma hingað til að ræða frið hugsaði ég með mér að ég þurfti að gera eitthvað sérstakt til að sýna þeim að fólkið í Hanoi bjóði þá velkomna.“